137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[15:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að það voru einmitt nýju bankarnir sem greiddu út til þeirra sem áttu í peningamarkaðssjóðunum. Það fóru 203 milljarðar, hvorki meira né minna, út úr bönkunum án heimildar og maður veltir því fyrir sér hvort hér sé verið að læðast aftan að Alþingi og afla einhvers konar bakstuðnings eftir á. Það er svona sú tilfinning sem maður hefur. Það verður væntanlega tekið til umræðu í efnahags- og skattanefnd.

Varðandi svar hv. þm. Helga Hjörvars til Ólafar Nordal sem hann flækti hérna inn í svarið til mín þá held ég að það sé bara einfaldlega ekki rétt hjá hv. þm. Helga Hjörvar að heimildin gildi út árið 2010 eins og ég skildi hann rétt. Það stendur einfaldlega mjög skýrt að það gildi út árið 2008 hér í frumvarpi til laga um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008. Þetta er bara algjörlega kýrskýrt.

Svo er ekki kannski síst stærsta málið og það er einmitt þessi heimild til lántöku hjá Norðurlandaþjóðunum. Við verðum að fá það á hreint vegna þess að um leið og við köllum eftir gögnum í Icesave-málinu þá köllum við líka eftir því hvort fullyrðingar stjórnvalda séu réttar og hvort það sé til dæmis rétt að lánin frá Norðurlöndunum hangi á spýtunni varðandi Icesave-málið. Við verðum að fá úr því skorið. Ég get ekki betur séð en hér sé verið að gera ráð fyrir því að þessi lán komi þannig að við getum tekið það út úr Icesave-myndinni. Það er kannski bara ágætt að það sé gert hér og nú. Lánin frá Norðurlöndunum hanga ekki á spýtunni varðandi Icesave-deiluna. Þar með er líka rangt að (Forseti hringir.) aðrar þjóðir ætli að einangra Ísland eins og haldið var fram hér áðan í fyrirspurnatíma.