137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski ekki beint andsvar heldur meira meðsvar. Það er ágætt að þau komi líka fram í umræðunni.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður benti á áðan að við eigum að koma fram og viðurkenna vandann, viðurkenna að hann er gríðarlegur, viðurkenna að við getum ekki tekið á okkur meiri skuldbindingar en við höfum nú þegar gert en það er allt í lagi að rifja það upp að það er ekki svo langt síðan að ráðherrar Samfylkingarinnar komu fram og sögðu að það væri kannski allt í stakasta lagi og báðu menn að fara rólega og varlega í umræðunni.

Hæstv. fjármálaráðherra kom hér fram og talaði um mikilvægi þess að gjaldeyrisforðinn væri ávaxtaður og mikilvægi þess að hafa sterkan gjaldeyrisvaraforða. Það er hárrétt. En í Icesave-samningunum höfum við einfaldlega veðsett allar eigur íslenska ríkisins, þar á meðal gjaldeyrisvaraforðann og það er einmitt sú eign sem yrði fyrst gengið að. Ég sé að hv. þm. formaður fjárlaganefndarinnar andvarpar. Þetta stendur skýrum stöfum í samningunum, skýrum stöfum og það þarf ekkert að velta vöngum yfir því.

Hv. þm. Valgeir Skagfjörð spurði líka: Erum við ekki bara gjaldþrota og í hvaða stöðu verðum við þá? Það er einmitt málið. Ef við tökum að okkur meiri skuldbindingar, ef við tökum á okkur skuldbindingar sem við getum ekki staðið við, þá fyrst verðum við eins og Norður-Kórea, eins og hefur verið nefnt í umræðunni. Þá verður staða almennings svipuð og staða almennings í Norður-Kóreu og staða almennings á Kúbu. Það er það sem málið snýst um. Og af því að hv. þingmaður var ekki alveg viss á tölunum þá vil ég bara taka það fram að heilbrigðiskerfið, eitt og sér, kostar okkur u.þ.b. 120 milljarða þannig að 1.000 milljarða skuldbinding er allt heilbrigðiskerfið okkar, rekstur þess í 8–9 ár. Þetta eru fjárhæðirnar sem við erum að ræða um.