137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[16:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þarna kom jafnvel svarið í lokasetningunni hjá hæstv. fjármálaráðherra. Lánið frá norska ríkinu er á ábyrgð norska ríkisins en virðist þó ekki vera það annars staðar á Norðurlöndunum. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um að öll Norðurlandalánin væru á sömu kjörum og þá væri alveg gráupplagt úr því að þessi umræða fer fram og þessi lántaka er til umræðu að hæstv. fjármálaráðherra upplýsti á hvaða lánakjörum norrænu lánin koma til okkar, sérstaklega í ljósi þess að í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hefur komið fram að þetta er víst hætt að vera tengt Icesave þótt hæstv. viðskiptaráðherra hafi viljað tengja þetta saman áðan. Ég skora á hann að upplýsa okkur. Okkur þingmenn er farið að vanta svolítið upp á heildstæða mynd af þessu þannig að það væri líka mjög æskilegt ef hæstv. ráðherrar í þessari vinstri grænu ríkisstjórn færu aðeins að samhæfa sig og tala í takt.