137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég endurtek það enn einu sinni að hér er eingöngu verið að stemma af lántökuheimildirnar miðað við það sem þær geta mestar orðið og gengið hefur verið út frá í vetur að væru hluti af þeim efnahagsáætlunum sem unnið er samkvæmt. Þetta eru nákvæmlega þær tölur. Það er að sjálfsögðu mjög oft þannig að lántökuheimildir ríkissjóðs eru rúmar og síðan fellur það niður sem er ónýtt og ekki þarf á að halda. Þannig hefur það verið mörg undanfarin ár að það hafa t.d. verið inni á fjárlögum heimildir til að styrkja gjaldeyrisforðann sem ekki hafa verið nýttar að fullu. Það hafa ekki verið aðstæður til þess eða ekki þörf á því. Eins hefur þetta mjög oft verið með stærstu opinberu lántakendurna eða þá sem taka lán með ríkisábyrgðum, fjárfestingarsjóði og aðra slíka aðila.

Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að hv. þingnefndir fái öll þau gögn sem að gagni mega koma við að skoða þessi mál og þau liggja algerlega fyrir. Þau liggja fyrir í samstarfsáætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þau liggja fyrir í forsendum síðasta fjárlagafrumvarps, þ.e. gildandi fjárlaga. Varðandi bankana þá endurtek ég það bara að að sjálfsögðu verður ekki sett meira fé inn í bankakerfið en þarf til að tryggja fullnægjandi fjármögnun þess. Og vonir standa til þess að talsvert lægri fjárhæð en upphaflega var áætlað dugi í þeim efnum og því fagna væntanlega allir ef ekki þarf að nýta heimildina en það er talið rétt að hún standi þannig að ótvírætt sé að fullnægjandi lagaheimildir séu til staðar eins og venjan er í þessum efnum. Síðan verður þá það ónýtt sem ekki þarf á að halda.