137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er eðlilegt að við eðlilegar aðstæður hafi ríkið dálítið svigrúm til eða frá við lántöku. En hugsanlegar lántökur sem hlaupa á hundruðum milljarða við þær aðstæður sem við erum í nú, er það ekki eðlileg krafa? Við viljum því fá að vita hvernig á að ráðstafa þessu fé og hvers vegna er verið að biðja um svo gríðarlega mikið svigrúm. Fyrst hæstv. ráðherra ætlar ekki að svara því hvað verður gert við peningana gæti ég þá hugsanlega fengið svar við spurningunni ef ég hef hana öfuga: Getur ráðherra fullvissað þingheim um það að peningarnir verði ekki notaðir til að ráðstafa í bankana umfram það sem gert var ráð fyrir vegna þess að komið hafi í ljós að fjárfesting ríkisins í bönkunum sé mun áhættusamari en gert var ráð fyrir, eignasafnið sé óöruggara? Getur hæstv. ráðherra einnig fullvissað mig um það að peningarnir verði ekki notaðir til að halda uppi gengi krónunnar? Því að ef sú er raunin að verið sé að verja milljörðum á milljarða ofan í að verja gengið þá eru það upplýsingar sem þingið þarf að fá sem allra fyrst.