137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska eftir því að formaður efnahags- og skattanefndar komi hér og sé viðstaddur umræðuna. Það er hann sem leggur frumvarpið fram, ekki hæstv. fjármálaráðherra, og ég vil bara benda á þá staðreynd að hér er enginn þingmaður Samfylkingarinnar, jafnvel þó að við séum að ræða afar brýnt og mikilvægt mál. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, hann er fullur af framsóknarmönnum og stöku sjálfstæðismönnum. [Hlátur í þingsal.] Verður orðið við þessari ósk, hæstv. forseti?

(Forseti (ÞBack): Það er verið að athuga með viðveru hv. þm. Helga Hjörvars.)

Ég þakka fyrir það. Svo ég haldi áfram með þetta, það er í sjálfu sér mjög undarlegt að það skuli vera efnahags- og skattanefnd eða meiri hluti hennar sem leggur málið fram. Ég vil benda á þá staðreynd, af því að þetta er sambærilegt frumvarp og frumvarpið um heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku árið 2008, í rauninni sama eðlis, að það var lagt fram af fjármálaráðherra sjálfum, ekki meiri hluta efnahags- og skattanefndar, enda kom í ljós áðan að formaður nefndarinnar er ekkert sérstaklega vel inni í málinu og forðaðist að svara spurningum og hefur væntanlega forðað sér út úr húsi, þó að ég vonist til að hann komi hér og taki þátt í umræðunni með okkur.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson benti á það í ræðu sinni að svo virtist sem Vinstri grænir væru búnir að svíkja öll kosningaloforð sín og taldi upp svik við aldraða og öryrkja og Evrópusambandið. Einhvern tíma var talað um það að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ætti að henda út og hæstv. heilbrigðisráðherra heldur þeim málflutningi fram. Það væri gaman að fá skoðun hæstv. fjármálaráðherra á þeim ummælum, að samflokksráðherra hans haldi því fram að við eigum ekki að binda trúss okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að, eins og líka kom fram áðan, svo virðist sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viti af hverju verið er að veita þessa heimild upp á 290 milljarða en ekki þingmenn og fjármálaráðherra getur ekki, eins ótrúlegt og það er, gefið skýr svör um af hverju, hvernig standi á þeim fjárútlátum.

Svo vantaði inn í upptalninguna áðan um svikin að Vinstri grænir hafa talað svolítið fyrir því að stór og mikilvæg mál fari einmitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Akkúrat.) Allir skilja að Evrópusambandið, það flókna mál, ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en þá kemur hæstv. fjármálaráðherra fram í Morgunblaðinu og segir að þetta sé þannig mál að það sé flókið og erfitt að færa rök með því að hann treysti þjóðinni væntanlega ekki til að skilja það og vill þess vegna ekki að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann bar reyndar líka fyrir sig að það væri ekki komið fram lagafrumvarp en það vill svo skemmtilega til að ríkisstjórnin og Borgarahreyfingin hafa einmitt lagt fram frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur og við reiknum með því að Vinstri grænir ætli a.m.k. að samþykkja það. Það væri gaman að fá (Gripið fram í.) — kannski ekki víst, en það væri gaman að fá skýr svör við því hvaða mál eru það stór og þess umkomin að þeim sé vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu jafnvel þótt þjóðaratkvæðagreiðslan sé ekkert endilega bindandi.

Reyndar er ein ástæða og ein skýring sem ég velti upp fyrir þessu frumvarpi núna og fyrir þessari aukaheimild ríkissjóðs upp á 290 milljarða og hún er sú að bankarnir ákváðu að greiða 203 milljarða til þeirra sem áttu fjármuni í peningamarkaðssjóðum. Þetta var ekki lögbundin skylda, það var ekkert um þetta í neyðarlögunum. Þeir kröfuhafar áttu að sjálfsögðu að fara í rétta röð samkvæmt gjaldþrotalögunum. Getur verið að nú sé einmitt verið að fjármagna bankana vegna þess að þeir töpuðu þarna út 203 milljörðum? Getur það verið, hv. þm. Helgi Hjörvar? — sem ég sé að er kominn í þingsal og það er vel. Getur það verið? Og ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta sé skýringin. Og þá langar mig að spyrja í framhaldinu vegna þess að þegar bankarnir ákváðu að greiða þessa gríðarlegu fjármuni þá skildu þeir einn peningamarkaðssjóð eftir, Peningamarkaðssjóð Íslenskra verðbréfa. Fólk úti á landi hafði lagt peningana sína þar í og maður veltir fyrir sér og barðist fyrir því á sínum tíma að ef ríkissjóður stæði raunverulega á bak við, þá yrði ekki gerður greinarmunur á því hvar fólk ætti peninga. Ég man þá tíð áður en hæstv. fjármálaráðherra skipti um skoðun í öllum málum að hann barðist einmitt fyrir því með mér að þetta yrði leiðrétt. Við börðumst saman í því og það væri gott að fá að vita hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi lagt af þessa baráttu sína.

Svo er eitt í þessu, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á það hefði átt að lauma þessu inn í bandorminn eftir 2. og 3. umr. þannig að þetta hefði ekki farið í eðlilegan farveg og umræðan hefði verið með afar litlu móti. Kannski var ríkisstjórnin að vonast til að enginn tæki eftir þessu. En hvað varð um öll ummælin um aga í ríkisfjármálum, að reyna nú loksins að koma þessum málum í góðan farveg? Ég vona að hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, geti svarað því. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, var hér rétt áðan. Ég vona einnig að hann komi hér og svari þeirri spurningu vegna þess að aginn er enginn. Við horfum einfaldlega sífellt upp á vandræðaganginn og það er ekki boðlegt, frú forseti, að svona sé haldið á málunum.

Svo er eitt sem við skulum fá á hreint vegna þess að auðvitað skipta Icesave-lánin, þetta skuldabréf við breska og hollenska ríkið, höfuðmáli þegar við ræðum þetta frumvarp. Hér er í raun staðfesting á því að Norðurlöndin munu þrátt fyrir allt lána íslenska ríkinu, þrátt fyrir fullyrðingar þess efnis að tengsl séu á milli þess að við samþykkjum Icesave-skuldbindingarnar á Alþingi og að við fáum lán frá Norðurlöndunum, þær eru einfaldlega út í veður og vind. Við fáum lán, það hefur verið staðfest. Og ég heyrði ekki betur en fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði einmitt sagt líka í morgun að lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri ekki tengt Icesave-skuldbindingunum og þá eru fá rök eftir fyrir því að við samþykkjum þær. Og þá eru líka farnar út í veður og vind fullyrðingar hæstv. viðskiptaráðherra sem kom hér áðan í umræðunni og fullyrti að við yrðum Kúba norðursins. Það er bara rangt, það er bara rangt. Hann fullyrðir þetta án raka. Þjóðir heims munu eftir sem áður halda áfram viðskiptum við Ísland. Þjóðir heims halda áfram viðskiptum við lönd sem fremja alvarleg mannréttindabrot. Þjóðir heims halda áfram viðskiptum við lönd sem eiga í stríðsrekstri. Við Íslendingar gerum það einnig og það er einfaldlega þannig að önnur lönd eiga viðskipti við okkur Íslendinga vegna þess að það er þeim til hagsbóta. Það er ekki ölmusa af þeirra hálfu að eiga viðskipti við þjóðina. Það er einfaldlega þeim í hag að kaupa okkar góðu vörur, fiskinn okkar og fleira á þeim kjörum sem þar bjóðast og það mun haldast áfram þannig að landið mun ekki lokast þó að við samþykkjum ekki Icesave-reikningana sem ég tel miklar líkur verða á ef fullyrðingar einstakra þingmanna Vinstri grænna halda.

Svo er kannski eitt í þessu öllu saman, af því að við erum að ræða lán frá Norðurlöndunum. Hvernig væri að hæstv. fjármálaráðherra kæmi fram og segði okkur hver kjörin eru? Þingmenn hafa áður í umræðunni spurt hæstv. fjármálaráðherra út í kjörin, vegna þess að það skiptir máli varðandi Icesave-skuldbindingarnar. Ef þetta eru verri kjör þá hafa kjörin á Icesave-skuldbindingunum hækkað áður en við kvittum undir þær á Alþingi og það er grafalvarlegt mál. Erum við að fá lánin á hærri vöxtum en 5,5%? Þetta er spurning sem ég vona að hæstv. fjármálaráðherra svari. Mér fannst svona hálfkómískt, verð ég að segja, þegar hæstv. fjármálaráðherra kom upp áðan og varði Seðlabankann og baðst undan því að hann væri gagnrýndur. Það hefur ekkert breyst frá því að Davíð Oddsson yfirgaf stól Seðlabankans. Það hefur ekkert breyst. Stýrivextirnir eru nánast þeir sömu, lækka lítillega. Það hefur nánast ekkert breyst. Nú má ekki gagnrýna hann en ef ég man rétt var það hæstv. fjármálaráðherra sem var fremstur í flokki við að gagnrýna ráðstafanir Seðlabankans sem nú má ekki gagnrýna á neinn hátt.

Virðulegi forseti. Þetta er miklu stærra mál heldur en þessi eina blaðsíða gefur til kynna. Þetta er í rauninni mál sem hefði átt heima með umræðunni um bandorminn. Það mál hefur fengið mikla umfjöllun. Ég vona að fjölmiðlar landsins kveiki á því hvað þetta er stórt mál og hversu mörgum spurningum er ósvarað í því. Ég tek undir þær vangaveltur sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom með áðan hvort við séum einfaldlega að gera rétt með því að hafa þetta með þessum hætti, hvort þetta eigi ekki að vera inni í fjárlögum ríkisins samkvæmt stjórnarskránni og ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra. Hv. þm. Helgi Hjörvar gat ekki svarað þessari spurningu. Mér fannst hann reyndar taka undir að það yrði að skoða sérstaklega.

Svo í lokin vil ég velta því upp hvort það sé ástæðan fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra vill ekki leggja nafn sitt við þetta frumvarp að hér er verið að veita Landsvirkjun aukaheimild upp á 50 milljarða. Hvort sem honum líkar það betur eða verr þá er það þannig að við þurfum á stóriðjuuppbyggingu að halda. Það kom skýrt fram í síðustu þjóðhagsspá að stór hluti þeirra tekna sem við ætlum að afla í framtíðinni mun koma einmitt frá stóriðjuframkvæmdum sem Vinstri grænir hafa alla tíð verið á móti. Það er ekki samþykktur samningurinn um fjárveitinguna til Helguvíkur. Álverið á Bakka er í uppnámi. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar komu fram á sínum tíma og sögðu að sú framkvæmd mundi ekki tefjast um einn dag. Síðan kom í ljós degi síðar að það yrði a.m.k. eitt ár en nú er það þannig því miður að það geta orðið tvö ár. Það væri ágætt ef hæstv. fjármálaráðherra hefur einhverja hugmynd um stöðu mála þar en ekki bara í Helguvík og hann komi líka hér og upplýsi það, þó að ég geri svo sem ekki kröfu um að hann fari djúpt í þá umræðu á þeim tveimur mínútum sem hann hefur. En ég vona að hann sjái kannski tilefni til þess að setja sig á mælendaskrá og svari ítarlegum spurningum okkar í ræðu þar sem hann hefur 15 mínútur en ekki í stuttum tveggja mínútna andsvörum.