137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágæta ræðu. Hún var ljómandi góð en hins vegar var engin svör að finna í henni við þeim spurningum sem ég beindi til hans. Mig langar því að ítreka þær, þ.e. til hvers á að nota þessa 290 milljarða, í hvað fara þeir fjármunir? Af hverju þarf núna 385 milljarða inn í banka þegar búið er að lýsa því yfir að þess þyrfti ekki? Og ein aukaspurning því hæstv. fjármálaráðherra vék sér undan því að svara henni og það er lykilspurning í þessu og lykilspurning varðandi framtíðina, lykilspurning varðandi það hvernig við ætlum að lifa af og reka þetta þjóðfélag. Hvaða kjör eru á lánunum sem er verið að minnast á í þessu frumvarpi? Hvaða kjör eru á lánum Norðurlandanna t.d.? Eru það betri kjör eða verri kjör en þessir svokölluðu vinir okkar eru að bjóða okkur varðandi Icesave? Það eru afarkostir í þeim samningi, algerir afarkostir. Eru þessi kjör betri eða verri? Ég vona að hv. þingmaður og hv. formaður efnahags- og skattanefndar geti svarað þessum þremur spurningum því að ef ekki þá hljótum við að þurfa að framlengja þennan fund því við hljótum að þurfa að fá svör við þessum spurningum.