137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli undrun á því að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki hafa flutt ræðu um það mikilvæga mál sem við ræðum hér og hæstv. ráðherra skuli ekki hafa svarað þeim fyrirspurnum sem þeir aðilar sem hafa tekið þátt í þessum umræðum hafa komið fram með. Að fjármálaráðherra ríkisins skuli ekki vera í húsi og skuli ekki hafa sett sig fyrr á mælendaskrá til að svara efnislega hluta, a.m.k. hluta af þeim spurningum sem við höfum komið fram með er náttúrlega ólíðandi gagnvart Alþingi Íslendinga að mínu viti.

Við spurðum margítrekað, frú forseti, um vaxtakjörin á þeim lánum sem við höfum gert gagnvart Norðurlöndunum. Engin svör. Er um eitthvert leyndarmál að ræða, frú forseti? Eitthvað sem þingmenn mega ekki heyra eða fá aðgang að? Hvað er verið að fela? Er það undarlegt þótt tortryggni ríki bæði í þessum þingsal og almennt í samfélaginu gagnvart slíkum stjórnarháttum? Ég sé að hv. formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, er kominn í salinn og það er spurning hvort hv. þingmaður viti hver vaxtakjörin eru sem fulltrúar íslensku þjóðarinnar hafa skrifað undir gagnvart Norðurlöndunum. Eru það þessir glæsilegu Icesave-vextir upp á 5,55%? Eru það 7% vextir? Hver er upphæðin? Hvað eru stjórnvöld að fela? Af hverju má Alþingi og alþingismenn ekki fá aðgang að þessum upplýsingum? Það er hneyksli, frú forseti, að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki svara efnislega þeim spurningum sem við höfum lagt fram.

Ég óskaði líka eftir því að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir heildaryfirliti skulda, ekki bara ríkisins heldur sveitarfélaganna líka, hvað íslenskt samfélag skuldar, hvað hver einasti Íslendingur skuldar og hvort við getum risið undir öllum þeim skuldum. Engin svör. En hæstv. ráðherra benti á skýrslu sem hann ætlar að flytja á morgun, um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 og að hv. þingmaður sem hér stendur ætti að kynna sér þau. Maður verður hálforðlaus þegar maður les fyrirsögn skýrslunnar. Það mætti halda að það væru að koma kosningar. En þar stendur, með leyfi frú forseta: „Stöðugleiki, velferð, vinna“, frá sama hæstv. ráðherranum og er nýlega búinn að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3.600 millj. kr. Eru menn að gera grín að Alþingi Íslendinga með því að koma með skýrslu sem heitir „Stöðugleiki, velferð, vinna“ eða er mönnum í stjórnarmeirihlutanum virkilega alvara með þessari fyrirsögn? Er þetta alveg í samræmi við raunveruleikann af því að hæstv. ráðherra er að biðja okkur þingmenn í stjórnarandstöðunni að tala eins og raunveruleikinn er. Er einhver velferðarstefna í gangi í ríkisfjármálum þessi missiri? (Gripið fram í.) Ég bið hv. þingmenn stjórnarliðsins sem eru í salnum að upplýsa hæstv. fjármálaráðherra því að hann er ekki í húsinu um þá efnislegu umræðu sem fer fram um ríkisfjármálin. Það er reyndar með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli ekki vera flutningsmaður að þessu frumvarpi sem við ræðum hér enda er það samið efnislega í fjármálaráðuneytinu. Hvað hræðist hæstv. fjármálaráðherra? Þorir hann ekki í efnislega umræðu við stjórnarandstöðuna? Af hverju svarar hæstv. ráðherra ekki þeim spurningum sem við höfum ítrekað lagt fram? Þetta gengur einfaldlega ekki og þessi framkoma gagnvart löggjafarsamkomunni er fyrir neðan allar hellur og við getum einfaldlega ekki látið bjóða okkur þetta.

Ég vil að lokum benda á það sem dæmi um málefnafátækt Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem talaði í aðdraganda síðustu kosninga gegn aðild að Evrópusambandinu en er nú með hv. formann utanríkismálanefndar Alþingis, Árna Þór Sigurðsson, í broddi fylkingar komin langt að því að sækja um aðild með Samfylkingunni. Það er verið að tala um áframhaldandi virkjanir. Er það alveg í takt við það sem Vinstri grænir sögðu í aðdraganda síðustu kosninga? Mér finnst með ólíkindum hvernig einn stjórnmálaflokkur er búinn að snúa helstu stefnumálum sínum svo gersamlega á hvolf og enn verra finnst mér að ráðherra í sama stjórnmálaflokki skuli ekki svara efnislega þeim spurningum sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram, mikilvægum spurningum. Það er sem ég sæi hv. þáverandi þm. Steingrím J. Sigfússon láta þáverandi hæstv. fjármálaráðherra bjóða sér slíka framkomu. Þetta er ekki þinginu sæmandi, frú forseti.