137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[17:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að nýta mér þann ræðutíma sem ég á vegna þess að ég hreinlega velti fyrir mér til hvers við þingmenn erum hérna núna. Að tala um mál við fjármálaráðherra sem ekki er í salnum, ekki er flutningsmaður en var samt að svara fyrir þetta. Hv. þingmaður og formaður efnahags- og skattanefndar hefur gert sitt besta til að svara fyrir frumvarpið og þakka ég honum það en það er móðgandi að ráðherrann skuli ekki sýna þinginu þann sóma að sitja hér og hlusta og svara þeim spurningum sem til hans hefur verið beint. Það er hreinlega móðgandi. Er ráðherraræðið er þannig, frú forseti, að þeir þurfa ekki að virða óskir þingsins, þeir þurfa ekki að sitja og hlusta, jafnvel þegar þeir bera ábyrgð á málaflokkunum þá láta þeir sig hverfa. Ég ítreka það að hv. þm. Helgi Hjörvar reyndi að svara ágætlega fyrir þetta mál sem hann er vissulega 1. flutningsmaður að en hefur líklega fengið það býsna vel unnið í sínar hendur í nefndinni. Ég auglýsi eftir því að fjármálaráðherra svari þeim spurningum sem til hans hefur verið beint. Hæstv. fjármálaráðherra, hvar sem þú ert í heiminum — ég segi nú ekki eins og sagt er í sögunni um Búkollu, sem manni dettur í hug, en það þarf að auglýsa eftir að þessi svör komi.