137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[18:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með þingmönnum sem hafa talað á undan mér að þetta er orðið alveg hrikalega neyðarlegt og hallærislegt fyrir hæstv. fjármálaráðherra. Hér er komið með frumvarp sem er samið í ráðuneyti hans, lagt fram af meiri hluta efnahags- og skattanefndar og hér sést ekki nokkur einasti einstaklingur nema formaður nefndarinnar sem var særður upp í þingsal. Það liggur fyrir að það eigi að fara að skuldsetja ríkissjóð um fleiri hundruð milljarða. Þetta er svo dæmigert fyrir núverandi ríkisstjórn, sem ræður ekki neitt við neitt, að menn taki til fótanna eins og ég benti á í ræðu um daginn þegar Evrópumálið var til umræðu og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra læddist með veggjum. Nú eru ráðherrar ekki einu sinni í húsinu, þeir eru líklega komnir heim til sín. Þetta er náttúrlega ekki bjóðandi hvorki þingi né þjóð hvernig hér er haldið á málum og ég geri mikla athugasemd við þetta.

Áður en frumvarpið fer til 2. umr. eða frumvarpsdrög eða hvað maður á að kalla það sem er á þessu nánast auða blaði, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson benti á, vil ég gera það að tillögu minni og beini því til þín, frú forseti, að því verði fylgt eftir að í málið verði fenginn stjórnskipunarfræðingur. Hér á að fara að setja lög um frekari skuldsetningu íslenska ríkisins byggð á lögum sem voru hálfgerð neyðar- eða bráðabirgðalög á sínum tíma fljótlega eftir hrunið. Sú heimild sem veitt var í þeim lögum, sem eru nr. 60/2008, gilti eingöngu út árið 2008, heimildin sem er upp á 500 milljarða í því frumvarpi sem varð að lögum er komin inn í þetta frumvarp í gegnum fjárlög og ég efast stórlega um að lántaka með þeim hætti sem er verið að bera á borð fyrir þingið sé heimil samkvæmt stjórnarskrá Íslands. Ég vil fá úr þessu skorið því að í frumvarpinu sem við erum að ræða stendur neðst í greinargerð:

„Fordæmi eru fyrir því að viðbótarlánsfjárheimilda sé aflað með almennum lögum, sbr. lög nr. 60/2008.“

Ég leyfi mér að efast stórlega um að þetta sé hægt að framkvæmdarvaldið geti valtað yfir löggjafarþingið einu sinni enn með þessum hætti. Ég óska eftir og vonast til að hlustað verði á þá ósk mína að stjórnskipunarfræðingur mæti í efnahags- og skattanefnd ef málið er fast þar. Ég efast að sjálfsögðu líka um að þetta mál eigi heima í þeirri nefnd, það á náttúrlega að vera í fjárlaganefnd, það er ekkert öðruvísi. Ég treysti fulltrúa Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd til að upplýsa þingflokk framsóknarmanna um þetta þegar einhverjir fundir verða haldnir í hv. efnahags- og skattanefnd svo við getum haldið áfram með þetta mál til að bjarga ríkisstjórninni frá stórslysi og þjóðinni líka.