137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[18:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að fara í þetta mál, að svara hv. þingmönnum Framsóknarflokksins. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að reiða fram öll gögn sem máli skipta í sambandi við meðferð máls. Í þessu frumvarpi er ekki verið að taka neinar nýjar efnislegar ákvarðanir. Þetta hefur legið fyrir síðan í vetur. Þetta hefur verið útskýrt og verið opinbert og lengi legið fyrir að það væri ætlunin að efla gjaldeyrisvaraforðann um þessar stærðir, upp á 2,1 milljarð bandaríkjadala ef ég man rétt frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum samtals. Það er lán sem kemur í áföngum eftir því sem samstarfsáætluninni miðar fram og um 3 milljarða bandaríkjadala rúma, samtals frá Norðurlöndunum, Póllandi og Rússlandi. Þessar upphæðir hafa legið fyrir um margra mánaða skeið og að það væru fullnægjandi heimildir að sjálfsögðu til staðar til að ganga til samninga um þessi lán. Það er ekki venjan og ekki auðvelt að upplýsa um lánskjör fyrr en búið er að semja. Það er erfitt að gera það því samningar eru ekki frágengnir fyrr en þeir eru frágengnir. Þannig er veruleikinn. Þá eru þær upplýsingar reiddar fram eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti að þetta gengur fyrir sig nema hann þekki einhverja aðra aðferðafræði í þessum efnum sem er þá eitthvert framsóknarfyrirbæri sem mér þætti fróðlegt að heyra um. (BJJ: Það er nú gott fyrirbæri.)

Annars verð ég að segja alveg eins og er að maður er svolítið hugsi yfir þingmönnum Framsóknarflokksins. (VigH: Nú?) Það er verið að ræða stór mjög alvarleg mál, mikla erfiðleika íslensks þjóðarbús. Það er verið að ræða erfiðar aðgerðir og erfiðar ákvarðanir sem við þurfum að taka. Maður hefði kannski búist við, jafnvel þó að sumir þingmenn Framsóknarflokksins séu ungir og í þeim sé talsverður vorkálfur, að það örlaði einhvers staðar á einhverri örlítilli ábyrgðartilfinningu hjá framsóknarmönnum og þeir ræddu þessa hluti í og með og í bland einstöku sinnum af einhverri alvöru. En því er ekki að heilsa miðað við það sem ég hef fylgst með í dag og þá verður það að hafa sinn gang. (Gripið fram í.)