137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

133. mál
[18:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fellir hér mikla palladóma yfir málflutningi framsóknarmanna þegar kemur að stöðu efnahagsmála. Þetta er sami ráðherrann og stuðlaði að því að skrifað var undir Icesave-samkomulagið áður en fyrir lá greiðsluáætlun um það hvort íslenskt samfélag gæti staðið undir þeim skuldbindingum. Ef það er ekki ábyrgðarleysi þegar kemur að stærstu skuldbindingu sem nokkur ríkisstjórn ætlar að leggja á íslenska þjóð, ef það er ekki ábyrgðarleysi þá veit ég ekki hvað ábyrgðarleysi er. Og þegar hæstv. sami ráðherrann og gerði þennan gjörning sakar svo þann flokk sem er að gagnrýna þennan gjörning hæstv. ráðherra um ábyrgðarleysi í málflutningi þá er ráðherrann kominn á allsvakalegar villigötur. Hér erum við að tala um grafalvarleg mál og ef við sem erum kjörin af almenningi hér á landi eigum ekki að spyrja gagnrýninna spurninga, eigum ekki að kalla eftir upplýsingum og svörum sem við fáum ekki — og hæstv. ráðherra hámarkaði skömmina hér áðan með því að lýsa því enn einu sinni yfir að þingmenn stjórnarandstöðunnar skyldu bara horfa á fréttaþátt á miðvikudaginn því að hann mundi senda út fréttatilkynningu með upplýsingum um hver lánakjörin yrðu á lánum frá Norðurlöndunum. Það er verið að hafa Alþingi Íslendinga að engu. Við erum í umræðum, köllum eftir svörum en fáum engin svör.

Ég sé að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir brosir að þessu. Þetta er kannski voðalega létt verk sem ríkisstjórnin er að standa í þessa dagana enda sögðu þingmenn Vinstri grænna án þess að hafa séð Icesave-samkomulagið margir hverjir að þeir mundu styðja það. Þetta er aðför að efnahagslífi þjóðarinnar til næstu áratuga og þingmenn Vinstri grænna segja já fyrir fram með hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar. Ef það er ekki ábyrgðarleysi fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þá er ekkert ábyrgðarleysi.