137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:45]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo ég ljúki svari mínu frá því áðan, hinu fyrra andsvari mínu, langar mig að segja það, af því að hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni hvort eitthvað yrði rætt frekar um framfærslugrunninn á þessu sumarþingi, að ég vonast til þess að við sjáum hvert stefnir í þessum málum, hvort við sjáum fram á einhverja lendingu eða ekki — ég ætla svo sem ekki að lofa neinu um það — svona einhvern tíma í sumar, ég held að það væri auðvitað æskilegt. Við vitum að staðan er mjög þröng og það er erfitt í raun og veru að segja til um það.

Ég held að í þessum efnum skipti miklu að hugsa um að öðrum megin erum við að beina fólki í nám sem er auðvitað þjálfun sem skilar sér að einhverju leyti til baka. Að því leytinu til, ef við sjáum fram á að þessir fjármunir nýtist betur í lánasjóðnum en annars staðar væri auðvitað óskandi að þeir færu þangað. Það er í raun og veru það sem ég vil segja um það.

Hvað varðar Icesave-samninginn höfum við hv. þingmaður þegar rætt hann aðeins einmitt í umræðum um þetta mál, ef ég man rétt, í 1. umr. um það, og ég held að það sé langbest að við geymum þá umræðu þangað til málið kemur fram því það er erfitt að gera grein fyrir afstöðu í jafnflóknu máli og Icesave-samningnum í tveggja mínútna andsvari.