137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki náði ég að knýja fram svar frá hæstv. menntamálaráðherra um Icesave-samkomulagið enda kannski ekki við því að búast. Ég virði það að hæstv. ráðherra vilji fá umþóttunartíma til þess að velta þessum málum fyrir sér vegna þess að við erum að tala um þvílíkar fjárhæðir að sá sem hér stendur gerir sér varla grein fyrir því frekar en svo margir aðrir hvers lags gríðarlegt umfang þetta er. Maður hefur verið að reyna að setja bara vaxtagreiðsluna fyrsta árið í samhengi við rekstur í menntakerfinu, þá jafngildir það rekstri allra íslensku háskólanna í hátt í þrjú ár. Þetta eru svo óskiljanlegar stærðir að ég vonast til þess að með mjög málefnalegri umræðu þegar við förum að kafa ofan í þau mál muni meiri hluta þingsins snúast hugur, því ég hef því miður grun um að meiri hluti þingmanna ætli sér að samþykkja þessa hrikalegu samninga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag í heild sinni. En við skulum bíða og sjá hvað það varðar.

Ég vil fagna því að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að til greina gæti komið að við mundum sjá einhverja áfanga í þessu samspili á milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna þess að eftir samtöl við fjölmarga stúdenta sem hafa ekki getað fengið vinnu við hæfi í ljósi atvinnuleysisins veit ég að það er mjög erfitt fyrir ungt fólk á Íslandi í dag sem stundar nám að framfleyta sjálfu sér, sumt fólk jafnvel með börn, og þetta er mjög erfitt umhverfi sem blasir við mörgum. Þess vegna er það svo grátlegt þegar fólk er að reyna að bjarga sér, bæta við þekkingu sína, að þá horfum við upp á þetta samspil eins og það lítur út, og ég held að ef við setjumst yfir þetta mál í ágætri yfirvegun hljóti allir að sjá að það þurfi að gera breytingar.