137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eðlilega getum við hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir ekki verið sammála í öllum málum, en mér finnst að við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvernig staða ríkisfjármála verður næstu ár og jafnvel áratugi í málum sem þessum. Staða ríkissjóðs verður náttúrlega að vera með þeim hætti að hann sé aflögufær til þess að standa undir öflugu menntakerfi og velferðarkerfi og ég minntist á það áðan að segjum sem svo að við mundum setja aukalega 400 millj. kr. eða meira að segja rúmar, 420 millj. kr. inn í lánasjóðinn núna til þess að hækka framfærslugrunninn til handa námsmönnum þá væri það einungis 1% af þeim vaxtagreiðslum sem mundu koma til fyrsta árið vegna Icesave-samninganna.

Ég er í raun og veru að setja þetta í samhengi til þess að reyna að upplýsa það héðan úr ræðustól Alþingis hvers lags gríðarlegar skuldbindingar þetta hefur í för með sér. Þá getum við hv. þingmaður, segjum sem svo að þetta verði samþykkt, því miður ekki í eins miklum mæli stutt við Lánasjóð íslenskra námsmanna heldur en ella ef við hefðum náð betri samningum við þær þjóðir sem hér um ræðir. Mér finnst því mikilvægt að þessi vinkill komi fram og ég mun í mörgum öðrum umræðum um alls lags málefni, Ríkisútvarpið og hvað sem er, setja hlutina í þetta samhengi. Það getur vel verið að hv. þingmönnum Samfylkingarinnar þyki það ábyrgðarlaust en ég tel að við verðum að átta okkur á því um hvaða hlutföll og stærðir er að ræða og það mun að sjálfsögðu bitna á Lánasjóði íslenskra námsmanna og námsmönnum, eins og öldruðum og öryrkjum ef við skrifum undir jafnslæma samninga (Forseti hringir.) og Icesave-samkomulagið er.