137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[18:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé svo sem engan uppbyggingarfasa fram undan á Íslandi í ljósi þess að við þurfum að skera niður af fjárlögum Íslendinga á næstu tveim, þrem árum um 180 milljarða kr. sem verður sársaukafullt fyrir okkur öll. Í ofanálag koma vaxtagreiðslurnar sem ég nefndi áðan sem geta verið, samkvæmt því sem maður heyrir í fjölmiðlum, allt að 300 milljarðar kr. Þær byrja þá að tikka eftir u.þ.b. sjö ár, sem mun þýða að þá verðum við áfram að stuðla að mjög erfiðum aðgerðum. Ég nefndi það hér að í ljósi umfangs þessa máls og þeirra skulda sem nú þegar blasa við okkur þurfti að skera niður framlög til námsmanna um 1,3 milljarða með því að hækka ekki framfærslugrunninn samkvæmt því sem vísitala neysluverðs hefur hækkað og ofan á það að hafa skert kjör aldraðra og öryrkja nú nýlega um 3.600 milljónir. Á örfáum dögum er því búið að skerða kjör aldraðra, öryrkja og námsmanna um 5 milljarða kr. vegna núverandi erfiðleika í efnahagslífi þjóðarinnar, að við tölum ekki um, verði þetta samkomulag um Icesave samþykkt, þá verða enn erfiðari tímar að mínu viti eftir sjö ár þegar við þurfum að fara að borga þessa himinháu vexti sem blasa við okkur í samfélaginu.

Annars vil ég óska hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, sem talar hér fyrir hönd Samfylkingarinnar, til hamingju með að málstaður Samfylkingarinnar í Icesave-málinu virðist hafa gengið í gegn því að ég get ekki betur séð en að Samfylkingin sé að svínbeygja Vinstri hreyfinguna – grænt framboð þegar kemur að þessu máli. Ég finn að innan þeirra raða eru mjög blendnar tilfinningar gagnvart þessu á meðan samfylkingarmenn eru mjög áfjáðir um að þetta verði samþykkt eins og það lítur út. Það er þá ekki í eina málinu sem Samfylkingin hefur beygt Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í duftið því að sá flokkur hefur snúið stefnunni við í ansi mörgum málum finnst mér.