137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Krafan um ábyrgðarmenn á námslánum hefur verið umdeild og því hefur jafnvel verið haldið fram að hún samræmdist ekki markmiðum Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem eiga að tryggja jafnrétti til náms. Markmiðin með þessu frumvarpi sem hér um ræðir lúta því fyrst og fremst að jafnréttis- og sameiningarsjónarmiðum. Óvissuþættirnir eru talsverðir við kostnaðarmat eins og fram kom hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur áðan, einkum vegna þess að ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu oft ábyrgðarmenn greiða af láni og því er erfitt að sjá þessar afleiðingar breytinganna fyrir fram. Sá sem tekur lán haustið 2009 útskrifast í fyrsta lagi 1. janúar 2010 og hefur afborgun af láninu síðan árið 2012. Samkvæmt upplýsingum frá stjórn lánasjóðsins verður auðvelt að bregðast við ef afskriftir aukast verulega við þá breytingu sem hér um ræðir.

Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum gott samstarf í þessu máli.