137. löggjafarþing — 29. fundur,  29. júní 2009.

ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[19:05]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Ríkisútvarpið, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að gjalddagar útvarpsgjaldsins svokallaða verði þrír í stað eins.

Með lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., varð sú breyting að í stað afnotagjalda fyrir útvarpsafnot skyld koma sérstakt útvarpsgjald, stundum kallað nefskattur sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda í júlí ár hvert. Innheimtu afnotagjaldsins lauk um síðustu áramót.

Við þau tímamót var sú breyting gerð á lögum um Ríkisútvarpið að ákveðið var að gjalddagi útvarpsgjaldsins yrði einn. Í ljósi breyttra efnahagsaðstæðna og í þágu greiðenda gjaldsins þykir nú rétt að endurskoða þessa tilhögun og hefur hún verið endurskoðuð innan míns ráðuneytis og er lagt til í þessu frumvarpi að gjalddagar vegna einstaklinga verði þrír í stað eins, þ.e. 1. ágúst, 1. október og 1. desember, en gjalddagi lögaðila verði á hinn bóginn 1. nóvember. Þá er tekið fram að dragist framlagning álagningarskrár fram yfir fyrsta gjalddaga einstaklinga eða lögaðila færist gjalddagar til um einn mánuð. Í stað þess að þurfa að greiða gjald þetta í einu lagi í ágúst, svo sem fer um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, er einstaklingum skapað það hagræði að greiðsla gjaldsins dreifist á þrjá gjalddaga.

Þessi breytta innheimta kann að hafa innheimtukostnað í för með sér en fjármálaráðuneytið telur að útgjöldin gætu aukist um 9 millj. kr. sem fælust þá í því að það þyrfti að senda út fleiri greiðsluseðla en einn, þ.e. þrjá.

Hins vegar vil ég nefna það sérstaklega í þessu samhengi að margir hafa haft samband út af þessu máli með útvarpsgjaldið og óskað eftir því að þetta yrði skoðað, að mögulega væri hægt að greiðsludreifa þessu gjaldi eins og öðrum. Þannig er málum háttað að það þarf þá að gerast með lagabreytingu, það þarf lagabreytingu til að hægt sé að dreifa gjaldinu á fleiri en einn gjalddaga og því legg ég þetta fram. Ætlunin er að þetta sé greiðendum til hagræðis. En ég lít svo á að hv. menntamálanefnd muni skoða málið og ræða það áfram og þingið muni taka þetta til meðferðar. Ég lít svo á að hér sé fyrst og fremst verið að koma til móts við greiðendur gjaldsins og í ljósi þess líka að hér er í fyrsta sinn verið að innheimta þetta gjald og þetta er breyting frá afnotagjöldum sem voru innheimt jafnt og þétt yfir árið og ljóst að það kann að koma illa við margra að fá einn reikning fyrir þessu 1. ágúst.

Ég hef nú gert grein fyrir frumvarpinu og legg til að því verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr.