137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag fer fram 1. umr. um frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Þingmenn Framsóknarflokksins og þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að einu mikilvægasta máli sem komið hefur inn á borð þingsins, Icesave-deilunni, verði skotið til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði í viðtali við Vísi þann 27. júní sl. að þetta tiltekna mál væri of snúið til að hægt væri að bera það undir þjóðaratkvæði. Auk þess væru ekki til nein lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Því verður kippt í liðinn fljótlega ef þingmenn stjórnarinnar ætla að greiða þeim lögum atkvæði sitt en það sem vekur furðu mína er viðsnúningur ráðherrans á viðhorfi sínu. Hann sagði í umræðu á Alþingi 4. mars 2003 þegar verið var að ræða um álverið á Reyðarfirði:

„Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri.“

Nú vil ég spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um skoðun hennar á þessum ummælum formanns flokks hennar og hvort hún vilji að Icesave-málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort málið sé ekki einmitt af þeirri stærðargráðu að það falli undir það frumvarp sem ríkisstjórnin leggur fram í dag.