137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður hafði óskað eftir því að ræða við mig um afstöðu mína til þjóðaratkvæðagreiðslu og ég vil segja það í upphafi að stefna Vinstri grænna í þeim efnum er mjög skýr. Við viljum beina aðkomu þjóðarinnar að mikilvægustu málum og við höfum ítrekað á undanförnum árum, allt frá þinginu 2001–2002, flutt um það tillögur á þingi, um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls, um þjóðaratkvæði um byggingu Kárahnjúkavirkjunar 2002–2003, um sölu Landssímans 2004–2005 og um framhald eða stöðvun stóriðjuframkvæmda á árinu 2005–2006.

Á þessum tíma var það ekki beinlínis Framsóknarflokkurinn sem studdi okkur í þessum hugmyndum, því miður var það ekki svo. Engin af þessum tillögum okkar náði fram að ganga. Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi náðist hins vegar um það niðurstaða í verkefnaskrá að settur verði lagarammi um þjóðaratkvæðagreiðslur og nú er hann kominn fram, frumvarpið er komið fram og er á dagskrá í dag. Það er ákveðin málamiðlun eins og gengur og ég verð að segja það fyrir mig að ég sakna þess úr því frumvarpi (Gripið fram í.) að minni hluti þingmanna geti ekki kallað eftir því að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Ég sakna þess líka, hv. þingmaður, að í þessu frumvarpi er ekki ákvæði um að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. (HöskÞ: En Icesave?) Ég skal koma að því, hv. þingmaður. Það hefði verið ágætt ef spurningin sem beint var til mín í morgun hefði snúist um það. Hún snerist um hvaða afstöðu ég hefði til þjóðaratkvæðagreiðslna almennt. En ég fæ tækifæri til að koma upp aftur í seinna svari, vona ég, og þá skal ég koma að aukaspurningunni sem þingmaðurinn beindi til mín.