137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegakerfið í kringum Stór-Reykjavíkursvæðið og á suðvesturhorninu, Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur, er löngu sprungið. Þar eru hættulegustu vegarkaflarnir á landinu, langhættulegustu og dýrustu slysin á hverju einasta ári eru á Suðurlandsvegi. Þess vegna hefur sá sem hér stendur og margir aðrir þingmenn og sveitarstjórnarmenn um árabil, sérstaklega síðustu 4–5 árin, barist mjög fyrir því að skilið verði á milli akstursstefna á veginum og vegurinn breikkaður. Það hefur unnist ágætlega áfram. Það var ákveðið í vetur að fara ekki með það í einkaframkvæmd, heldur bjóða út tiltekinn kafla sem er tilbúinn til útboðs. Síðustu tvo daga hefur umræðan hins vegar verið mjög villandi og byggð á þeim grundvallarmisskilningi að núna hafi allt í einu átt sér stað forgangsröðun á milli vegaframkvæmda, Suðurlandsvegar, Vaðlaheiðarganga og samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni, en það er mikill misskilningur. Engin forgangsröðun á milli vegaframkvæmda hefur átt sér stað. Það er kjarninn í málinu. Engu hefur verið slegið á frest nema þeim útboðum sem áttu að eiga sér stað á hefðbundnum ríkisframkvæmdum. Sumar þeirra hafa frestast út af niðurskurði í vegamálum en Suðurlandsvegur, sá kafli og áfangi sem var kynntur í vetur, stendur eins og stafur á bók, sá kafli verður boðinn út við fyrsta tækifæri um leið og ríkið fer aftur að bjóða út.

Það væri ný ákvörðun að hætta við ríkisframkvæmdina og tvöföldun og setja hann allan í einkaframkvæmd sem hefur alltaf komið mjög vel til greina, t.d. kaflann Hveragerði – Selfoss eins og rætt var um, þannig að hér er um að ræða mikinn misskilning, engin forgangsröðun hefur átt sér stað og engu verið frestað. Ég óskaði eftir því í gær við Samband sunnlenskra sveitarfélaga, samgönguráðherra og Vegagerð að við héldum sameiginlegan fund í þessari viku með öllum þingmönnum kjördæmisins um þetta mál, einkaframkvæmd og vegamálin almennt, út af þessari villandi misskilningsumræðu og sá fundur verður, vænti ég, með samgönguráðherra, Vegagerð, SASS og þingmönnum á morgun.