137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Svo virðist sem það sé hálfflókið fyrir stjórnarþingmenn að skilja þetta. Þessi liður heitir störf þingsins, við gefum upp hvert umræðuefnið er og síðan beinum við fyrirspurnum til einstakra þingmanna. Þær eiga ekki að vera skriflegar, þetta á að vera óundirbúið og ég vonast til þess að aðrir þingmenn treysti sér í framtíðinni til að svara spurningunum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi nokkur mál sem hún vildi að færu í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Icesave-deilan ein og sér, fullyrði ég, er stærra mál en öll hin sem hún nefndi áðan, jafnvel þó að þau hafi verið mjög brýn. Það skal ekki dregið úr því.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði að þetta mál væri of flókið fyrir ríkisstjórnina þegar það var borið á hann í fjölmiðlum núna um daginn. Engu að síður sagði hann, með leyfi forseta:

„Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri.“

Ég beini enn á ný spurningu minni til hv. þingmanns um hvaða skoðun hún hafi á því hvort Icesave-deilan eigi að fara í þjóðaratkvæði og hvort hún sé sammála hæstv. fjármálaráðherra, þá annars vegar gamla hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem var þá hv. þingmaður eða núverandi sem finnst þetta of flókið fyrir þjóðina. Ég held að málið sé einfaldlega of flókið fyrir ríkisstjórnina. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Ég treysti þjóðinni mun betur en núverandi ríkisstjórn til að leysa úr þessu máli.

Það er líka ágætt að velta öðru upp: Er Icesave-málið flóknara en ESB-umræðan? (Forseti hringir.) Á ekki að senda það í þjóðaratkvæðagreiðslu?