137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

stofnfé sparisjóða – þjóðaratkvæðagreiðslur – Icesave – samgöngumál.

[14:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Stundum þegar spurt er og menn fá ekki þau svör sem þeir vilja þá finnst þeim að þeim hafi ekki verið svarað. Ég sagði að samningurinn væri ekki glæsilegur. Ég sagði að pólitískir embættismenn gætu vel unnið í samninganefndum að því gefnu að þeir hefðu leitað sér ráða hjá þar til bærum mönnum, líkti því við Alþingi og tók það sérstaklega fram að ég treysti þingmönnum mjög vel og teldi þá hæfa til að vinna sitt verk og hæfasta til margra hluta, aftur að því gefnu að þeir leiti sér ráða og það er það sem við ætlum að gera við Icesave-málið. Þess vegna er málið að koma inn í þingið, þess vegna á það að afgreiðast hér og það á að leita til allra þeirra kunnáttumanna sem við eigum völ á og ég hlýt að áskilja mér rétt til að fá að skoða niðurstöðuna þegar þar að er komið. Ef ég ætti að sitja á flokksstjórnarfundum Samfylkingarinnar og taka ákvarðanir um það hvað þar fer inn í þingið þá eru það vinnubrögð sem þekkjast einhvers staðar annars staðar en hjá okkur.

Það er auðvitað þingið sem á að fá að ráða í málinu. Við tökum ákvarðanir um hvort málið fari fyrir þingið og það hefur verið gert nú þegar og það kemur væntanlega fljótt og vel inn í þingið. Það fær vonandi vandaða umfjöllun eins og önnur mál, við tökum okkur þann tíma sem til þarf. Ég get alveg sagt hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að ég hef fyrir fram þá skoðun að það eigi að ganga frá þessu máli með samningum. Það sé gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðarbúið og þjóðfélagið og ég hef líka þá skoðun fyrir fram að við ráðum ágætlega við það en ég ætla að fá að sjá öll gögnin í málinu og heyra umfjöllun allra þeirra sem hafa verið með gagnrýni í málinu áður en ég tilkynni það með atkvæði mínu í Alþingi og ég vona að þannig sé með fleiri þingmenn. Þannig eigum við auðvitað að vinna og ég ætla ekki að láta nudda mér út í að fara í einhvern annan farveg með málið.

Varðandi önnur mál sem hafa verið rædd hef ég miklar áhyggjur af því sem hér hefur komið fram varðandi sparisjóðina. Það er afsprengi af því umhverfi sem við höfum búið við, fáránleikanum sem var í gangi á undanförnum árum þar sem menn toguðu og teygðu ákveðnar stofnanir langt út fyrir það sem þeim var ætlað áður og sitja svo uppi með að reyna að bjarga þeim málum í framhaldinu. Ég ætla að vona að það gerist farsællega en málið er ekki auðvelt.