137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

stofnfé sparisjóða – þjóðaratkvæðagreiðslur – Icesave – samgöngumál.

[14:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búið að vera með fjörugri umræðum undir dagskrárliðnum um störf þingsins í langan tíma og gaman að því. En ég ætla að blanda mér í umræðuna um Suðurlandsveginn og forgangsröðunina í vegamálum.

Ég er mjög ánægð með að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson segir að þetta sé allt á misskilningi byggt og ég fagna því að við séum að fara að funda um þetta mál á morgun og þakka fyrir það frumkvæði þingmannsins. Ég óttast hins vegar að þetta sé ekki allt á misskilningi byggt og það er þess vegna sem ég kveð mér hljóðs því að hv. þingmaður sagði í svari sínu að það væri ekki verið að fresta neinu, þetta yrði boðið út við fyrsta tækifæri þegar ríkið færi í gang að nýju. Það er það sem ég hef áhyggjur af vegna þess að ég held að ríkið sé ekki að fara í gang að nýju neitt fljótlega, en það er allt í lagi, segir ráðherrann, vegna þess að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur ákveðið að treysta á einkaframtakið í þessum efnum og bjóða út í einkaframkvæmd ýmsar samgöngubætur. Ég tel það vissa nýlundu, sérstaklega hjá Vinstri grænum, og fagna því en þá og einmitt þá kemur forgangsröðunin í ljós og það er það sem verið er að gagnrýna. Þá eru Vaðlaheiðargöngin sett fram fyrir og Suðurlandsvegurinn settur aftar í þeirri röð. Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir ráðherranum að það væri vegna þess að skipulagsmálin væru lengra komin í Vaðlaheiðargöngunum. Því vil ég koma hér og mótmæla vegna þess að samkvæmt öllum þeim fundum og yfirlýsingum sem hafa verið gefnar og sérstaklega fyrir kosningar. Ég veit það frá sveitarstjórnarmönnum, t.d. bæjarstjóranum í Ölfusi sem var á fundi með umdæmisstjóra Vegagerðarinnar fyrir viku síðan og sagði að það væri hægt að bjóða veginn út með vikufyrirvara ef það kæmi grænt ljós frá hæstv. samgönguráðherra. Ég geri því ráð fyrir að (Forseti hringir.) Vaðlaheiðargöngin þurfi kortersfyrirvara til að toppa það, (KÞJ: 10 mínútur.) 10 mínútur segir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson en (Forseti hringir.) þetta er það sem við höfum áhyggjur af. Þetta er forgangsröðunin sem mönnum líkar ekki.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn að virða tímamörk.)