137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér hefur verið til umfjöllunar á dagskrá fundarins sérstakur liður sem heitir Störf þingsins. Það sem hefur gerst í dag er að hann hefur í raun breyst í óundirbúinn fyrirspurnatíma frá einstökum þingmönnum til annarra þingmanna. Ég tel að þetta fyrirkomulag sé ekki í samræmi við þingsköp og ég tel að hæstv. forseti þurfi að taka það til umfjöllunar hvort ekki þurfi að breyta þessum lið.

Síðan eru sum mál sem hér eru tekin upp þess eðlis að þau ættu í raun heima undir liðnum Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra vegna þess að það er verið að tala um yfirlýsingar sem ráðherrar hafa verið að gefa. Ég tel að það eigi að taka það til skoðunar að breyta þessum lið, jafnvel óundirbúnum fyrirspurnatíma þannig að fleiri þingmenn komist að í þeim umræðum en bara fyrirspyrjandinn og ráðherra líkt og gerist með hefðbundnar fyrirspurnir. Ég tel líka að það þurfi að vera meira skikk á þessum umræðum um störf þingsins og menn taki fyrir einstök tiltekin mál og fleiri komist í efnislega umræðu um þær en þær snúist ekki í óundirbúnar fyrirspurnir til einstakra þingmanna.