137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ég ætti kannski að nýta frekar liðinn til að bera af mér sakir vegna þess að mér þótti liggja í orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að spurningarnar sem voru bornar upp hefðu ekki verið nógu góðar. Ég frábið mér þann málflutning vegna þess að í 50. gr. þingskapa segir að undir þessum lið, störf þingsins, geti þingmenn kvatt sér hljóðs um störf þingsins, gefið yfirlýsingu eða beint spurningum til formanna nefnda, formanna þingflokka eða annarra þingmanna. Liðurinn er ansi opinn og ég tel einfaldlega að þingið hafi nýtt sér þennan lið og umræðurnar hafi farið ágætlega fram og verið tiltölulega málefnalegar og jafnvel svolítið líflegar sem er vissulega ágætt fyrir okkur nýja þingmenn. Ég upplifi þennan lið þannig að þetta sé frjálslegt form, einmitt til þess að eiga skoðanaskipti við félaga sína og sessunauta á þinginu, til að fá fram þeirra afstöðu til ýmissa mála. Þetta er einn af mínum uppáhaldsliðum, ég lýsi því hér með yfir. [Hlátrasköll í þingsal.]