137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sennilega vissara fyrir auman fyrrverandi vörubílstjóra að fara varlega í umræðu við prófessorinn og hagfræðinginn. Ég ætla því ekki að fara hér út í að reyna að bera það á borð að ég sé betur að mér í hagfræðilegum fræðikenningum en hv. þingmaður. Ég held hins vegar að þessi reifun sé yfirveguð og ég held að hún færi af sanngirni rök fyrir sjónarmiðum í báðar áttir í þessum efnum. Niðurstaðan er auðvitað sú að það val aðlögunarleiða sem við stöndum frammi fyrir skiptir máli, hefur þjóðhagsleg áhrif bæði til lengri tíma og skemmri tíma og það er reynt að sýna það hér með myndum sem ég hvet hv. þingmann til að skoða og gera þá eftir atvikum athugasemdir við ef hann telur að þar sé eitthvað brogað. Þá verð ég að fara til þeirra fræðimanna sem hér hafa lagt hönd á plóg, hafa annast útreikninga, einkum og sér í lagi í mínu ráðuneyti en þó í samstarfi við fleiri aðila. Ég fagna að sjálfsögðu málefnalegri umræðu um það hvort við þurfum að styrkja betur og (Forseti hringir.) breikka fræðilegan grunn til ákvarðanatöku á komandi mánuðum og missirum í þessum efnum.