137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er mjög upptekinn af þessu (Gripið fram í.) og hefur hér ímugust á sköttum, hvort sem það eru afdráttarskattar á vaxtagreiðslur úr landi sem færa má augljós sanngirnis- og samræmingarrök fyrir eða umhverfisgjöld, sem hv. þingmanni virðist vera næstum því (REÁ: Ég var að tala um óvissu.) jafnilla við. Það er nú tvennu ólíku saman að jafna, annars vegar þeim áformum sem þegar hafa verið lögfest og hins vegar reifun hér í skýrslunni um möguleika á þessu sviði sem ég hélt að hv. þingmaður vissi að hvarvetna væri verið ýmist að setja á eða að minnsta kosti að undirbúa að setja á, þ.e. ýmiss konar breytingar í skattkerfinu sem taka mið af nýjum viðhorfum í umhverfismálum og reyna að stýra þróun atvinnulífs og uppbyggingar í sjálfbæra átt. Það er að sjálfsögðu inn í slíka hluti sem hér er verið að vísa (Gripið fram í.) í umfjöllun um möguleg umhverfisgjöld, kolefnisgjöld og annað í þeim dúr.