137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum hafa í huga að þessi áætlun byggist á ákveðnum viðmiðunum hvað varðar annars vegar tekjuöflunarhluta aðlögunarinnar og hins vegar útgjaldahluta aðlögunarinnar á yfirstandandi ári og næstu tveim. Að öðru leyti hefur það ekki verið fest niður. Þar er markmiðið að tekjuöflunin standi fyrir um 45 af hundraði og sparnaður um 55 af hundraði.

Upp á þessi markmið hafa aðilar vinnumarkaðarins skrifað. Þeir hafa fallist á þau. Samtök atvinnulífsins horfast í augu við það og eiga heiður skilinn fyrir að sýna þá ábyrgð — veit ég þó að þeim er það ekkert sérstaklega ljúft svona hvunndags — að viðurkenna það að öðruvísi er þetta ekki hægt. Ég hvet því hv. þm. Bjarna Benediktsson að fara í heimsókn til flokksbróður síns, sem ég geri ráð fyrir að sé, Vilhjálms Egilssonar og ræða þetta við hann. (Gripið fram í.) Spurningin er hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki gott af því (Forseti hringir.) að nálgast þetta af (Gripið fram í.) sama raunsæi og sömu ábyrgð og aðilar vinnumarkaðarins hafa gert.