137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur alveg skýrt fram í þessu skjali að það eigi að auka skattinn á einstaklinga. Það kemur líka skýrt fram í þessari skýrslu að það eigi að auka skattinn á fyrirtækin. Reyndar er sagt þar að það standi til að auka skatthlutfallið þannig að það verði í átt við það sem gerist í flestum Evrópulöndunum.

Síðan er birt hér skýrsla sem sýnir að við megum eiga von á því að skattar á fyrirtæki hækki úr 18 upp í 28%, að skattur á arð hækki úr 10% upp í 30% og að meðaltali hækki skattar á fyrirtæki úr 26% upp í 43%. Er það misskilningur hjá mér eða er það þetta sem er verið að stefna að á blaðsíðu 25 í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir?

Hæstv. ráðherra svaraði því auðvitað ekki hér áðan hvað það þýði að fara með skattlagningu tekna einstaklinga og hækka hana um 2% af vergri landsframleiðslu, taka þannig 30–35 nýja milljarða inn (Forseti hringir.) í ríkissjóð eins og talað er um á blaðsíðu 24. Hvað á að hækka tekjuskattinn mikið? (Forseti hringir.)

Varðandi Samtök atvinnulífsins er ég bara einfaldlega ósammála þeim að ekki sé hægt að fara aðrar leiðir og ég áskil mér allan rétt (Forseti hringir.) til þess, þó að þar séu flokksbræður mínir. (Forseti hringir.) Við höfum bent á kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrissjóða til dæmis.

(Forseti (SVÓ): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að halda tímatakmörk.)