137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var sérstaklega að vísa til ábyrgðarleysisins í skattamálunum á árunum 2003–2007. Þá er málið orðið hv. þingmanni aðeins skyldara en svo að skamma Samfylkinguna. (Gripið fram í: 2007 og 2008.) Hv. þingmaður getur flett því upp að það var einn flokkur sem skar sig úr við þær aðstæður. Við vöruðum við þessum skattalækkunum. Við bentum á hagstjórnarlegu hætturnar og gryfjurnar sem í því væru fólgnar að stórlækka skatta og sérstaklega á tekjuháum einstaklingum og fjármagnstekjuhöfum á tímum vaxandi þenslu og verðbólgu. Það var um það bil eins vitlaust og nokkuð gat verið og það átti eftir að reynast okkur ásamt með fleiri mistökum sem gerð voru mjög dýrkeypt.

Varðandi umræður hér á þingi 2007 í aðdraganda fjárlagagerðar, ef hv. þingmaður er að vísa til þess, þá bið ég hv. þingmann sömuleiðis að fletta því upp. Ég fullyrði við hv. þingmann að í hvert einasta sinn sem við höfum flutt breytingartillögur á undanförnum árum um fjárútlát í tengslum við fjárlagafrumvarpsafgreiðslu (Forseti hringir.) þá höfum við flutt tillögur um tekjuöflun á móti.