137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það var tilfinnanlegt og sárt að þurfa að fara inn í almannatryggingakerfið en ég held að menn verði að hafa það í huga að þetta er hluti af stórri heildarmynd og það er meira eftir. Og ég held að þegar menn skoða þessa hluti t.d. í samhengi við það sem líklegt er að verði orðið um áramót og þegar lögfestar hafa verið víðtækar aðgerðir þar sem umtalsverðar byrðar hafa verið lagðar á aðra hópa þá sjái menn að það er einmitt ætlunin að verja undirstöður velferðarkerfisins, heilbrigðis-, mennta- og félagskerfið, eins og nokkur kostur er við þessar aðstæður. (Gripið fram í.) Það eru allir að fá á sig byrðar. Hvað máttu námsmenn sætta sig við núna á vordögum? Þeir urðu að sætta sig við óbreyttan framfærslugrunn, hverju þeir að sjálfsögðu mótmæltu en aðstæðurnar eru þannig að byrðarnar munu dreifast á alla hópa samfélagsins. Námsmenn höfðu samkvæmt venju átt rétt á 15% hækkun eða rúmlega það ef við hefðum verið í aðstæðum til þess að halda uppi sama kaupmætti og sama stigi á öllum sviðum en það erum við ekki og það er veruleikinn.

Að sjálfsögðu þurfum við líka að taka hart á því ef um undanskot og svindl einhvers staðar í kerfinu er að ræða. Það er enn síður líðandi við aðstæður sem þessar ef einhverjir eru að misfara með hluti af því tagi. Þess vegna er það einmitt líka ætlunin að fara í stórhertar aðgerðir eins og t.d. þær sem eru að hefjast núna gagnvart atvinnuleysisbótum, skattundanskotum og öðrum slíkum hlutum. Það má enn síður sýna nokkra vægð gagnvart slíkri hegðun við aðstæður af því tagi sem við búum nú við.