137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum til umræðu skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013, skýrslu sem hefur fengið titilinn „Stöðugleiki, velferð og vinna“ og vísar fyrirsögnin auðvitað til þeirra verkefna sem bíða okkar, þ.e. að koma á stöðugleika, viðhalda og helst efla velferðina og tryggja að við höfum vinnu í landinu. Það hefði mátt bæta þremur orðum við í fyrirsögnina því þar eru auðvitað þau verkefni sem blasa við okkur og eru gríðarlega mikilvæg á þessum tímum. Það er að bæta gengið, að ná vaxtagjöldunum niður, vaxtakostnaðinum, og það er að losa um gjaldeyrishöftin.

Þessi skýrsla kemur til viðbótar við þau gögn sem við höfum haft til að miða við í ríkisfjármálunum á undanförnum vikum og höfum á næstunni. Í fyrsta lagi höfum við byggt á fjárlögum sem samþykkt voru fyrir árið í ár, fjárlög sem gerðu ráð fyrir umtalsverðum halla vegna þess að þáverandi ríkisstjórn gerði sér grein fyrri því að við það áfall sem bankahrunið var þurftu menn að tryggja að samdrátturinn yrði ekki of snarpur og það var eðlilegt í sjálfu sér að reka ríkissjóð með halla eitt árið til að byrja með áður en gripið yrði til róttækra aðgerða.

Til viðbótar höfum við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og 100 daga áætlunina til viðmiðunar í þeirri vinnu sem við stöndum í. Nýlega samþykktum við aðgerðir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm fyrir árið 2009 og 2010 og nú bætist þessi skýrsla við og kemur samhliða stöðugleikasáttmála sem aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin stóðu að, um aðgerðir og umhverfi í sambandi við það umbótastarf til að skapa stöðugleika, vinnu og velferð í samfélaginu, umgjörð sem við þurfum að byggja á.

Það er mikilvægt að við stöndum saman í þinginu að leita allra bestu leiða til að koma okkur út úr þessum vanda og það eru vissulega óvissuþættir fram undan, stór verkefni sem eiga eftir að koma inn og fylla betur inn í þá mynd sem er verið að reyna að draga upp. Það eru ábyrgðirnar á Icesave-reikningnum og þær skuldbindingar sem því munu fylgja. Það eru auðvitað ESB-umræðan sem er mikilvægt innlegg með hvaða hætti og í hvaða umhverfi endurreisn íslensks samfélags mun eiga sér stað og við höfum séð sem innlegg í viðbót við fjárlögin frá 2009, óskir um lánsfjárheimildir eins og kom fram í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar þar sem þar sem einmitt er verið að óska eftir að fara að nýju yfir lánsfjárheimildir í fjárlögum.

Það er nú einu sinni þannig að það umhverfi sem við búum við er sífellt að taka breytingum. Þær áætlanir sem við setjum okkur varðandi fyrirtækin og heimilin breytast dag frá degi og það er okkar hlutverk að bregðast við og sjá til þess að leitað sé bestu lausna á hverjum tíma. Ég sagði frá því að fjárlögin fyrir árið 2009 voru samþykkt með rúmlega 150 milljarða halla og hallinn var þrátt fyrir að fjárlagafrumvarpið hefði verið skorið niður milli 40 og 50 milljarða og gerðar verulegar hagræðingarkröfur til ráðuneyta og stofnana ríkisins til að mæta þessari nýju stöðu. Breytingin var auðvitað sú að það var fyrirsjáanlegt verulegt tekjufall en ekki síður að áður skuldlaus ríkissjóður, að mestu, var að taka á sig verulegar vaxtagreiðslur og í fjárlögum er gert ráð fyrir milli 80 og 90 milljarða í vaxtagreiðslur. Það er umtalsverð upphæð af ekki nema 500 milljarða veltu ríkissjóðs. Það má því öllum vera ljóst að það er gríðarlega mikið í húfi í sambandi við gerð fjárlaga og í sambandi við þá áætlun sem hér er verið að leggja fram, þá skýrslu sem á að vera forsenda fjárlagagerðar næstu ára eða innlegg í þá umræðu og ramminn um þá fjárlagagerð. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum þessum skuldum niður, það verði ekki þannig að skuldasöfnun verði vaxandi, auknar greiðslur til vaxta og þar með minni peningur til rekstrar á samfélaginu, velferðarþjónustunni, heilbrigðiskerfinu, félags- og tryggingamálunum, skólamálunum o.s.frv. Það er þess vegna engin tilviljun að þegar menn settust yfir þetta á sl. hausti fljótlega eftir bankahrunið var gerð áætlun í samvinnu fjármálaráðuneytis, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem stefnt var að því að ná þessum svokallaða frumjöfnuði sem allra fyrst, þ.e. að ná jafnvægi milli útgjalda og tekna án tillits til vaxtagreiðslna og þetta átti raunar samkvæmt þessari skýrslu og samkvæmt þeim áætlunum að nást þegar árið 2011 og síðan í beinu framhaldi af því verði náð heildarjöfnuði, árið 2013, en þá ættum við að geta farið að greiða niður skuldir að nýju.

Í skýrslunni, í töflu 9, er birt yfirlit yfir aðlögunarþörf ríkisfjármála fyrir 2009–2013 og þar birtist einmitt það umfang sem er hvað nýjast sem við þekkjum best varðandi þær kröfur sem gerðar eru til fjárlagagerðar á næstu árum. Árið 2009 þurfti að grípa til niðurskurðar umfram 20 milljarða, þ.e. mínus 20 milljarða til viðbótar við það sem áður hafði verið ákveðið til að tryggja að fjárlögin héldu. Þetta var gert í bandorminum, annars vegar með tekjum og hins vegar með niðurskurði. Á árinu 2010 er krafan um 56 milljarða frekari samdrátt og síðan 43 milljarða 2011, 36 og 24. Í heildina eru þetta 170 milljarðar og það er eins gott að menn átti sig á því, sem mér finnst stundum hafa skort upp á, að við náum ekki 710 milljarða viðsnúningi á næstu 4–5 árum án þess að koma alls staðar niður, án þess að snerta alla þætti rekstrarins, án þess að grípa bæði til aukinna tekna og niðurskurðar á sama tíma.

Ég nefndi það að í þessari vinnu og samhliða þessari skýrslugerð voru aðilar vinnumarkaðarins á fundum í Karphúsinu. Þeir lögðu gríðarlega mikilvægan þátt inn í þessa vinnu sem var stöðugleikasáttmálinn og þar var gerður sáttmáli bæði um kjarasamninga, þ.e. rammarnir fyrir kjörin í landinu, og það var gerð aðgerðaáætlunin í ríkisfjármálum þar sem menn höfðu skoðun á því hvert umfangið væri og þaðan kom einmitt hugmyndin um að við skyldum ekki skattleggja okkur umfram 45% af þeim 170 milljörðum sem þarf að grípa til. Þar var rætt um að setja ákveðið ferli í gang, þ.e. frekari vinnu við að bæta stöðu lántakenda og skuldsettra heimila. Það var rætt um framkvæmdir til að auka og skapa aukna atvinnu, það var rætt um endurreisn bankanna og atvinnulífsins, það voru tímasettar ráðstafanir í gengismálum og vaxtamálum og rætt um málefni sveitarfélaganna. Allt þetta er til umfjöllunar í þessum stöðugleikasáttmála sem auðvitað er hluti af þeim plöggum sem hafa verið unnin til að tryggja hag ríkisins til lengri tíma.

Ég nefndi það áður að verkefni ríkisstjórnarinnar er síðan endurreisn íslensku bankanna, að leggja sitt af mörkum til að koma atvinnulífinu í gang að nýju og berjast gegn atvinnuleysinu sem er mesti ógnvaldur stöðugleikans ásamt gengi íslensku krónunnar, háum vöxtum og gjaldeyrishöftum. Þetta eru allt forsendur sem við þurfum að ná tökum á til að geta endurreist atvinnulífið og fengið hjólin til að snúast hraðar en nú er.

Þegar við skoðum skiptinguna á hvar við ætlum að grípa niður með þessa 170 milljarða þá, eins og ég sagði áður, verða menn að koma alls staðar við. Við verðum að horfa til tekjuöflunar og þar njótum við auðvitað að einhverju leyti góðs af, þó það sé hluti af vandamálinu, að sumir skattar voru lækkaðir í góðærinu. Það þýðir að jafnvel þó að við grípum aðeins til þess ráðs að færa skattana aftur í sama horf og þeir voru áður þá eiga að myndast við það umtalsverðar tekjur og getur varla verið hægt að tala um að það sé einhver skattpíning að stíga það skref til baka.

Varðandi niðurskurð í rekstri hefur ríkisstjórnin tilgreint í þessu plaggi og raunar í bandorminum ákveðinn forgang þar sem velferðarkerfið er varið og velferðarráðuneytin, bæði félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, þ.e. rekstrarþættir þessara ráðuneyta eru aðeins skornir um 5% á næsta ári, menntamálaráðuneytið lítillega meira en síðan önnur ráðuneyti og stofnanir um 10%. Það er mikilvægt að allur þessi niðurskurður og sú hagræðing sem verður að eiga sér stað nái einnig til stofnana ríkisins á öllum stigum fjárlagagerðarinnar, þ.e. til Landsvirkjunar, Ríkisútvarpsins og annarra stofnana sem hafa tekjur í samfélaginu og verða auðvitað að taka á sig samdrátt eins og hvað annað. Til viðbótar við niðurskurð í rekstri sem er gríðarlega mikilvægur er nauðsynlegt að við stillum upp að nýju og endurhugsum ríkisreksturinn, hver verkefnin eiga að vera og hvernig við sinnum þeim best, hvernig nýtum við fjármagnið best og hvort óhjákvæmilegt er að lækka tilfærslur að einhverju leyti. Þar undir eru vaxtabæturnar, barnabæturnar, þar undir eru framlög til bænda, sjúkratryggingar o.s.frv. En þá er auðvitað eftir að skipta þessu betur niður á einstaka þætti og í skýrslunni eru engar endanlegar tillögur um það frekar en endanlegar tillögur um skattálögur því að obbinn af þeim tillögum sem hér eru birtar eru nánast sem matseðill yfir eða rammi um hvað er mögulegt varðandi skattheimtu. Í framhaldinu er hægt að fylgja því eftir með því að velja úr og ákveða hvar verður gripið niður.

Í allri þessari vinnu voru útbúin sérstök leiðarljós sem fyrirtæki eða réttara sagt ráðuneyti og stofnanir fengu varðandi hvar ætti að grípa niður í aðhaldsaðgerðunum og þar voru auðvitað jafnrétti, velferð, menntun og atvinna höfð að leiðarljósi. Þar var lögð áhersla á það að forðast að beita flötum niðurskurði heldur að reyna að forgangsraða innan stofnana og ráðuneyta og reyna að meta hvar hægt væri að færa til án þess að skerða þjónustu. Það krafðist þess auðvitað, það er tekið fram í þessu leiðarljósi, að endurmeta skuli öll verkefni og starfsemi stofnana hversu nauðsynlegar sem þær eru, hvort sem þær eru óhjákvæmileg eður ei og ég treysti á að sú vinna verði vönduð og veit að flest ráðuneyti eru þegar farin að vinna slíka vinnu.

Það er líka tekið fram í leiðarljósinu að verja skuli brýn velferðarverkefni og því treystum við að verði fylgt eftir. Það á að verja lægstu launin en aftur á móti grípa inn varðandi þá sem hafa hærri launin og það hefur verið gert m.a. með skattlagningu en jafnframt er verið að reyna að taka þau fríðindi sem voru í tísku þegar þenslan var hvað mest og mikilvægt að taka þau af að nýju. Það var sett ákveðið hámark í viðmiðunum af launum, eins undarlegt og það virðist vera að það þurfti, þá var sett viðmið við það að enginn væri með hærri laun en forsætisráðherra og snerti það ýmsa af stjórnendum opinberra stofnana.

Ég ætla ekki að fara yfir allt leiðarljósið sem birtist í skýrslunni en þar kemur líka heill kafli um endurskoðun á stofnunum og stofnanastrúktúr ríkisins þar sem verður að byrja á því að endurraða ráðuneytum, skoða hvar verkefni eiga best heima og fækka ráðuneytum en jafnframt þarf auðvitað að skoða hvað af þeim stofnunum sem við höfum nýlega stofnað til eru óhjákvæmilegar og nauðsynlegar og gæti þurft að stíga einhver skref til baka og leggja niður stofnanir sem nýlega hafa verið settar á fót og endurskoða líka með hvaða hætti þjónustu er best sinnt. Þar hef ég svo sem sagt ítrekað að það er mikilvægast að hugsa alltaf til þess, fyrir hvern þjónustan er. Það er alveg sama hvort maður er að reka skóla eða eitthvað annað. Skólinn er rekinn fyrir nemendur fyrst og fremst. Heilbrigðisþjónustan er fyrir þá sjúku. Öldrunarþjónustan er fyrir þá öldruðu. Og við eigum auðvitað alltaf að hafa það að leiðarljósi við alla okkar vinnu að þeir peningar sem lagðir eru í slíka þjónustu nýtist þessum aðilum fyrst og fremst en fari ekki í einhverja skriffinnsku eða umsýslukerfi í kringum þjónustuna.

Það er heill kafli sem hefði verið ástæða til að fjalla sérstaklega ítarlega um. Það er um bætta fjárlagagerð og áætlanagerð, aukið aðhald og eftirlit. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vakti athygli á þeirri umræðu sem var m.a. í fjárlaganefnd í morgun um að það er augljóst og hefur verið augljóst raunar undanfarin ár, að mér sýnist og mér er ljóst þau tvö ár sem ég hef verið á Alþingi, að það þarf að breyta mjög vinnubrögðum hvað varðar fjárlagagerðina og síðan allt eftirlit með fjárlögunum, efla áætlunargerðina sjálfa. Það hefur ítrekað komið fram í umræðu að það er auðvitað þannig að þingið þarf að koma að því að búa til ramma, kannski svipað og verið er að leggja grunninn að með skýrslunni, leggja ramma að fjárlögum. Síðan fá ráðuneytin að fylla út í þann ramma, sem síðan kemur aftur til þingsins sem fjárlagatillögur og til umfjöllunar og afgreiðslu á haustin. Loks er það fjárlaganefndar, auðvitað ásamt stofnununum sjálfum og ráðuneytunum, að fylgjast með að menn standi við þessi fjárlög. Það er auðvitað fullkomlega óþolandi að til séu stofnanir sem komast upp með að fara fram úr fjárlögum ár eftir ár og jafnframt að skila hvorki rekstraráætlunum né þeim skýrslum sem viðkomandi stofnanir eru beðnar um.

Það vinnst ekki tími til að fara yfir alla þessa skýrslu. Ég held að hún sé afar gott innlegg í umræðuna og fylli aðeins inn í myndina. Það er ósk mín að allir stjórnmálaflokkar komi síðan að þessari vinnu, að skerpa ríkisfjármálin, leggja sitt af mörkum, taka þátt, komi með uppbyggilega gagnrýni og innlegg til lausna á þeim vanda sem við erum að glíma við þessa dagana.