137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var áhugavert að heyra svar hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um forsætisráðherrann sem augljóslega mótast þá af pólitískum skoðunum en ekki vinnuframlagi eða vinnutíma. Því (Gripið fram í.) væri áhugavert að sjá hvernig hann verðleggur þingmenn hér í salnum miðað við þetta og hvaða launakjör þeir eigi að hafa. (Gripið fram í.) Alla vega finnst mér ekki eðlilegt að við séum að tala hér um um það bil milli 900 þúsund og 1 milljón í laun á mánuði, þ.e. að fjöldi manna sem vinnur hjá hinu opinbera hafi töluvert hærri laun. Það ætla ég bara að tjá sem mína skoðun. Ég hef ekki sótt um það neina fyrirmynd til útlanda. Þess þarf ekkert. Ákveðin réttlætiskennd segir mér að þannig eigi uppbyggingin að vera.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af landsbyggðinni. Það er einn af þeim punktum sem hafa komið inn í þessa umræðu að þarf að verja sérstaklega. Ég bið bara liðsinnis hans í þeirri vinnu að verja landsbyggðina fyrir þessum eilífa niðurskurði á útöngunum þegar komið er til niðurskurðar. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega mikilvægt og skiptir miklu máli að við leitum ekki alltaf ódýru lausnanna með því að taka það (Forseti hringir.) sem er úti á landi fyrst.