137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[15:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisyfirlit hérna áðan. Hann lýsti þessu ágætlega í ræðu sinni sem matseðli og ég held að það sé réttnefni á plaggið. Það byrjar á ansi góðum grunni að því hvert vandamálið er og síðan eru listaðar hugmyndir að því hvernig eigi að hækka skatta sem eru svo margar að ég verð eiginlega að taka ofan hattinn fyrir skýrsluhöfundum og því hvað þeim dettur í hug að skatta. (Gripið fram í: Þú tekur ekkert fleira ofan en hattinn.)

Hæstv. fjármálaráðherra var spurður að því hérna áðan hvað hann sæi fyrir sér að tekjuskattar mundu hækka mikið. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort það sé einhver stefna hjá Samfylkingunni eða jafnvel hjá honum sjálfum hvað eigi að hækka tekjuskatta mikið.

Jafnframt vil ég fagna því alveg sérstaklega — það er ágætt að gera það við þetta tilefni — fagna því sérstaklega að það skuli vera komið á blað að hallinn á ríkissjóði verði 20 milljörðum meiri en menn hafa talað um. Nú er það komið á blað, komið í þinggögn — það er að vísu í lítilli neðanmálsgrein — þannig að hallinn á fjárlögum þetta ár verður 170 milljarðar í staðinn fyrir 153 eins og samþykkt var. Það væri athyglisvert að fá álit hv. þingmanns (Forseti hringir.) á því út af hverju þetta laumuspil hefur verið með verðbætur á láni hjá Seðlabanka Íslands (Forseti hringir.) upp á 20 milljarða og hvort það standi til að taka sérstaklega á þessu (Forseti hringir.) núna þrem dögum eftir að búið er að samþykkja bandorminn svokallaða.