137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég tel rétt að hafa dálítinn formála að ræðu minni vegna þess að svolítið hefur borið á því að sérstaklega hæstv. ráðherrar fjármála og utanríkismála hafa sakað mig um að vera neikvæðan, mála hlutina allt of dökkum litum, vera nánast niðurdrepandi í málflutningi um ástandið. Áður en ég fer að fjalla um þessa ágætu skýrslu hér tel ég rétt að vitna aðeins í hæstv. fjármálaráðherra í grein sem hann skrifaði árið 2007 og gera orð hæstv. fjármálaráðherra að mínum í þessu tilviki, (Gripið fram í.) gamla Steingríms. Með leyfi forseta:

„Undirritaður hefur ítrekað orðið fyrir því að undanförnu í umræðuþáttum eða rökræðum um efnahagsmál að vera sakaður um að segja að allt sé að fara til fjandans af þeim sökum einum að hafa bent á nokkrar staðreyndir.“ — (Fjmrh.: Það fór til fjandans.) Og er á leiðinni enn þá. — „Ef nefndur er metviðskiptahalli upp á 20% af vergri landsframleiðslu á árinu sem leið, vissulega ískyggileg staðreynd en staðreynd engu að síður, er reynt að afgreiða málið sem kaldakolstal. Ef minnst er á ört vaxandi hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins, sem voru að nálgast 170% af vergri landsframleiðslu um mitt síðasta ár“ — töluvert hærra núna — „er viðkomandi sakaður um að halda því fram að allt sé að fara til fjandans. Augljóst er að formenn stjórnarflokkanna valda ekki því að ræða málefnalega um stöðu efnahagsmála og eigin hagstjórnarafglöp. Þeir grípa þess í stað til þess ódýra úrræðis að saka gagnrýnendur og alla þá sem mæla varnaðarorð, stjórnarandstæðinga, jafnt sem innlenda eða erlenda sérfræðinga, um misskilning eða vera með svartagallsraus, heimsendaspár, mála myndina allt of dökkum litum o.s.frv.“ (ÁÞS: Ætlaðirðu ekki að vera jákvæður?)

En að skýrslu hæstv. fjármálaráðherra … (Fjmrh.: Hvernig fór …?) Hæstv. ráðherra hafði rétt fyrir sér, (Gripið fram í: Jaá.) enda talaði ég sama máli og hæstv. ráðherra á þessum tíma svoleiðis að ég held að hæstv. ráðherra mætti alveg hlusta þegar ég mæli varnaðarorð. Þó að viðkomandi sé kominn í ráðuneyti og vilji þar af leiðandi hugsanlega leika sama leik og forverar hans og reyna að draga upp bjarta mynd af ástandinu er það alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði á sínum tíma. Við verðum að horfa á hlutina af raunsæi, leggja á þá kalt mat svo að við getum gripið til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru. Þrátt fyrir allt höfum við tækifæri til þess og það er rétt að taka það fram. Við höfum öll tækifæri til að gera ástandið svo miklu betra en það er og gætum haft ágætisframtíðarhorfur. (Gripið fram í.) En það kemur ekki fram í þessari skýrslu hvers vegna framtíðarhorfurnar ættu að vera miklu betri.

Hér eru birtar ýmsar tölur og flestar lúta að því að ástandið fari hratt batnandi á næstu árum en það er ekki útskýrt hvers vegna það á að gerast. Ég bendi mönnum á að fletta upp á síðu 12 í bókinni sinni. Þar er að finna línurit. Það sýnir samanburð á þróun mála á Íslandi, þessari íslensku kreppu og kreppunni sem Norðurlöndin gengu í gegnum. Þar sjáum við rauða línu og svarta sem sýna Ísland. Eins og sjá má hrynur allt með alveg ótrúlegum hraða, miklu hraðar en á Norðurlöndunum. Kreppan þar var ekkert á við það sem er að gerast hér en einhverra hluta vegna gerist það eftir að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon tekur við að línan mun skjótast upp og fara fram úr Norðurlöndunum sem þó eru í miklu minni kreppu en við og áður en langt um líður er ástandið hér orðið betra en það var nokkurn tíma á Norðurlöndunum eftir að þau lentu í sinni kreppu. Það er hins vegar ekki útskýrt hvers vegna þetta á að gerast, hvers vegna ástandið kemur til með að batna á Íslandi, vegna þess að allar vísbendingar eru um að þróunin verði sú sama áfram.

Hér er farin af stað skriða og skriðþunginn eykst. Það er komin af stað sú hættulega keðjuverkun sem leiðir hagkerfið í glötun, leyfi ég mér að segja. Það gerist með þeim hætti að atvinnuleysi eykst og þar með dregst saman veltan í samfélaginu. Þegar veltan dregst saman lenda fleiri og fleiri fyrirtæki í vandræðum, atvinnuleysi eykst enn frekar, útgjöld ríkisins aukast, ekki hvað síst í formi atvinnuleysisbóta, en tekjur ríkisins minnka jafnt og þétt. Í þessu plaggi er hins vegar gert ráð fyrir að tekjur ríkisins muni fljótt fara hækkandi en ekki sagt hvers vegna. Það er ekkert útskýrt hvers vegna og hvernig þessi viðsnúningur á að verða. (TÞH: Jú, það verða hækkaðir skattar …) Hækkaðir skattar, vissulega. Ég kem að þeirri hagfræði fljótlega en fyrst nokkur orð í viðbót um spána og þær forsendur sem hún byggir á. Hún virðist umfram allt byggja á því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur upp með. Þá er einu sinni sem oftar gagnlegt að hafa í huga orð hæstv. fjármálaráðherra, áður en hann varð ráðherra, gamla Steingríms, um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn: „Ég held að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi aldrei haft rétt fyrir sér í hagspám sínum í nokkru landi en hér virðast menn telja að núna muni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í fyrsta skipti reynast sannspár og byggja málflutning sinn eingöngu á því enda litlu öðru til að dreifa.“

Svo er fjallað um að allir þurfi að leggjast á árarnar til að ná víðtækri sátt. Það er alveg rétt, en þessi ríkisstjórn leitar ekkert eftir ráðgjöf eða aðstoð frá þeim sem hana bjóða. Ég held að flestir Íslendingar séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum og hefði verið til að mynda í Icesave-málinu og raunar á það sama við um hina ýmsu útlendinga líka, helstu framámenn á sviði hagfræði og jafnvel lögfræði líka, menn eins og Nóbelsverðlaunahafann Joseph Stiglitz sem bauð Íslendingum aðstoð sína en hún hefur enn ekki verið þegin. Í staðinn er haldið fram einhverjum órökstuddum fullyrðingum um að hlutirnir muni lagast sisona og án þess að útskýra hvernig. Á sama tíma er tekin frá þjóðinni raunveruleg framtíðarsýn. Hvernig á þjóðin að geta lagst á árarnar með hæstv. ríkisstjórn og fengið trú á það að hlutirnir komi til með að lagast hér þegar við erum áminnt um það að á næstu árum falli gríðarlegar skuldir á ríkið, þ.e. ríkið þurfi að standa straum af gríðarlegum skuldbindingum? Að sjö árum liðnum fellur svo stóri víxillinn og slíkar upphæðir að aldrei í sögu landsins hefur verið til nægur gjaldeyrir til að hægt væri að standa undir þeim. Í rauninni hefur staðan til að skapa gjaldeyri aldrei verið erfiðari.

Ég sé að hæstv. viðskiptaráðherra er kominn, sá sem hélt fram tómri vitleysu um gjaldeyristekjur þjóðarinnar í gær þegar hann fullyrti að 5 milljarðar evra af gjaldeyristekjum — sem reyndar er ekki rétt tala — væru til ráðstöfunar. Það er bara ekki rétt. Það er nánast ekkert til ráðstöfunar vegna þess að gjaldeyristekjur þjóðarinnar fara nú þegar í vaxtagreiðslur til útlanda. Þær fara í nauðsynlegan innflutning, m.a. þann innflutning sem þarf til að geta skapað gjaldeyristekjur, olíu á fiskiskipin og súrálið til að framleiða álið úr og annan nauðsynlegan innflutning. Þegar það er allt frá eigum við ekkert eftir og það hefur ekki verið sýnt fram á hvernig eigi að skapa þennan viðbótargjaldeyri. (Gripið fram í.) Það kemur, hæstv. fjármálaráðherra. Ég mun birta lausnina í lokin.

Í þessu plaggi kemur reyndar fram hvernig þessi stuðningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hugsaður, hvernig á að nota þá gríðarlegu skuldsetningu sem þar er verið að setja á ríkið. Í fyrsta lagi á að endurvekja traust á íslenskum efnahag og styrkja gengi krónunnar eða halda því stöðugu með þessu láni. Er með því átt við að það eigi að eyða þessum peningum, milljörðum á milljarða ofan, tugum milljarða líklega, í það að halda uppi gengi krónunnar? Ef sú er raunin er það hættulegur leikur sem margar þjóðir hafa farið afar illa á.

Í þessu felst líka afskaplega merkileg þversögn vegna þess að lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er nú nefnt sem aðalástæðan fyrir því að við verðum að lúffa gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu er lægri upphæð, heildarlánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er lægri upphæð en bara vaxtagreiðslurnar af Icesave. Og Icesave-skuldbindingin mun óhjákvæmilega leiða til þess að gengi krónunnar lækkar og helst lágt árum og áratugum saman, a.m.k. í 15 ár, líklega miklu lengur svoleiðis að það að taka þetta Icesave-lán verður til þess að krónan verður ónýt áfram, gengið helst lágt og það er gert vegna þess að annars fáum við ekki lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem við ætlum svo að nota í að halda krónunni uppi. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt.

Reyndar er líka sagt að lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eigi að nota til að endurreisa bankana og gera íslensku fjármálakerfi kleift að standa á eigin fótum. Þar væri kannski æskilegt að skoða þær hugmyndir sem kynntar hafa verið um að hafa nú bankakerfið bara hæfilega stórt fyrir Ísland, vera ekki að reisa allt of stóra og allt of áhættusama banka og setja inn í þá þessa gríðarlegu peninga. Þá þyrfti ekki að taka öll þessi háu lán. Svo segir, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og viðhalda í framhaldi af því nokkrum afgangi á fjárlögum í þeim tilgangi að ríkisreksturinn verði sjálfbær og megni að lækka skuldir ríkissjóðs í viðunandi horf.“

Þetta skil ég ekki. Á að nota lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að jafna rekstur ríkissjóðs og gera hann sjálfbæran? Það gengur eiginlega ekki upp vegna þess að ef menn nota lán til að reka ríkissjóð er hann ekki sjálfbær, þá er ekki jöfnuður.

Ef við flettum áfram eru áfram þessar bjartsýnisspár um hratt vaxandi heildartekjur ríkisins. En hvernig eiga þessar tekjur að verða til? Með sköttum, jú. En það gleymist alveg að huga að skattstofnunum, þeir eru ónýtir. Það gleymist líka að huga að því að íslensk fyrirtæki eru mörg hver með gífurlegt uppsafnað tap sem þau munu þá væntanlega nýta sér á næstu árum þannig að ég sé ekki hvernig þessar skatttekjur eiga að verða til.

Hér er birt tafla um nýja aðlögunarþörf ríkisfjármála. Þar má sjá aðlögunarþörfina á hverju ári. Þar má benda á enn og aftur að um er að ræða tölur sem eru lægri en bara vaxtagreiðslurnar af Icesave. Og þegar menn segja, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði áðan, að framsóknarmenn séu með Icesave á heilanum — er það nokkuð skrýtið miðað við allt sem við erum að fara í gegnum og þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur enn ekki sýnt fram á hvernig okkur eigi að takast. Það eru lægri upphæðir en bara vextirnir af þessu ógurlega Icesave-máli. Og fyrst ég er nú kominn út í Icesave er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á töfluna aftast. (Gripið fram í: Það er búið að kjósa um …) Já, það er búið að kjósa um það, og hver varð niðurstaðan? Varð ekki niðurstaðan einmitt sú að sá flokkur sem beitti sér einna harðast gegn Icesave í kosningabaráttunni, Vinstri græn, bættu mestu fylgi við sig? Er það ekki ótvíræð niðurstaða? (Gripið fram í.) Afsakaðu, hæstv. utanríkisráðherra. (Gripið fram í.) Þakka þér fyrir, ég vona það.

Skuldir ríkissjóðs eru birtar í töflu aftast. Það hefur verið nefnt áður að þar er sleppt skuldbindingum eins og Icesave, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lánunum frá Noregi, þeim smámunum. Hver eru rökin fyrir því? Það er vegna þess að þessi lán fara í Seðlabankann og tengjast innstæðutryggingarsjóðnum. Þetta er sem sagt gamla trikkið úr útrásinni, að fela skuldir í einhverjum undirfélögum eða hliðarfélögum og halda því svo fram að allt sé í stakasta lagi. Ég efast um að lánshæfismatsfyrirtæki sjái ekki í gegnum þetta og því miður voru að berast af því fregnir rétt áður en ég steig í ræðustól að lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's hefði fellt lánshæfi Landsvirkjunar niður í svokallað „junk bond“, þ.e. ruslbréf. Það er spurning hvaða áhrif hæstv. fjármálaráðherra telur að þetta muni hafa á þessar spár og hvernig það falli að spánum og raunar hvaða vísbendingu þetta gefi um lánshæfi ríkisins og þar af leiðandi þessar gríðarlegu skuldbindingar sem menn taka á sig með Icesave á lánshæfi ríkisins.

Það er margt sem ég næ ekki að fara yfir en geri það þá síðar. Ég lofaði að enda þetta á jákvæðu nótunum. Eins og ég nefndi strax í upphafi eru vissulega tækifæri til staðar fyrir Ísland. Ísland hefur líklega betri tækifæri en nokkurt annað ríki sem farið hefur illa út úr heimskreppunni til að vinna sig út úr henni. Ástæðan er sú að tapið sem hér hefur orðið lenti að langmestu leyti hjá erlendum lánardrottnum, erlendum áhættufjárfestum sem hingað höfðu lánað peninga. Ef okkur tekst að tryggja það eins og lagt var upp með strax í upphafi, m.a. í ráðgjöf J.P. Morgans fjárfestingarbankans við Seðlabankann, að tryggja að þetta tap færist ekki yfir á íslenska skattgreiðendur, íslenskan almenning, er framtíðin björt. Þá er tvennt sem má ekki gerast, við megum ekki stofna allt of stóra banka með allt of stórar og áhættusamar skuldbindingar gagnvart erlendu kröfuhöfunum og við megum ekki samþykkja Icesave-samningana.