137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eitthvert undarlegasta svar við spurningu sem ég hef fengið. Ég vil þá kannski benda á ummæli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem fullyrti rétt áðan að ríkisstjórnin ætlaði að einkavæða bankana á nýjan leik sem hv. þingmaður er væntanlega á móti. En mig langar enn á ný að spyrja hann út í afstöðu hans til Icesave. Þetta er mikil spenna, hvað hann muni gera, já eða nei, hann áttar sig kannski ekki á því sjálfur varðandi Icesave. Mig langar líka að spyrja hann út í viðhorf hans til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, hvort hann telji að þjóðin eigi að hafa úrslitasvarið í því máli og bendi kannski á að formaður hans var eitt sinn þeirrar skoðunar að það væri ömurlegur málflutningur að treysta ekki þjóðinni en núna einmitt treystir hann ekki þjóðinni til að taka afstöðu. Er hv. þingmaður sammála formanni sínum um annaðhvort núverandi eða þáverandi skoðun?