137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[16:52]
Horfa

Valgeir Skagfjörð (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir fjörmikla ræðu áðan þar sem hann fór mikinn í upptalningu á fjölda hugmynda sem væri vert að hrinda í framkvæmd og margt hefur þegar verið gert sem er ástæða til að fagna svo sem eins og strandveiðar og þetta sem hann nefndi með kvótabraskið. Það færir okkur heim sanninn um nauðsyn þess að breyta kvótakerfi okkar.

Mig langar til að nefna hugmynd af því að hann er þarna með ríkisstjórnarflokkunum. Hér hafa ungir menn verið úti um allt samfélag að kynna rafmagnsbíla og ég sting upp á því að við förum að vinna í því að Ísland verði hugsanlega fyrsta þjóðin sem veitir þessu brautargengi, að við leggjum afl í að þróa og vinna með þessa rafmagnsbíla. Þetta er frábær hugmynd. Þetta er það sem koma skal. Getum við ekki á einhvern hátt nýtt hér orkuna og álframleiðsluna (Forseti hringir.) í tengslum við þessar rafmagnsbílapælingar? Þær eru mjög áhugaverðar.