137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu fjármálaráðherra um ríkisfjármál og hæstv. fjármálaráðherra er vant við látinn vegna þess að hann er annars staðar í húsinu að tala við fjölmiðlamenn. Ég spjallaði við hæstv. forsætisráðherra áðan og stóð í þeirri meiningu að blaðamannafundurinn yrði ekki haldinn fyrr en eftir að þessari umræðu væri lokið vegna þess að í millitíðinni ætti að dreifa skjölum sem verið er að kynna á blaðamannafundinum. Þau skjöl eru reyndar hér, þau liggja hér frammi.

Það er hreint með ólíkindum að ráðherra sem er að kynna skýrslu sitji ekki í sæti sínu og hlýði á umræðuna. Ég legg því til, virðulegur forseti, að fundi verði frestað þar til ráðherrarnir hafa lokið þessum ágæta blaðamannafundi og þá gætum við kannski líka fengið tækifæri til að kynna okkur hvað þau voru kynna fyrir landi og þjóð. (Gripið fram í: Við sjáum það í fréttum.) Við sjáum það reyndar í fréttum í kvöld, (Forseti hringir.) en ég legg til að þingfundi verði frestað þar til blaðamannafundinum er lokið.