137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hér sama mál. Það er algjörlega óþolandi hvernig framkoma þessa ráðherra er gagnvart þinginu að vera ekki í sal þegar rætt er mál sem hann sjálfur er í raun talsmaður fyrir. Maður spyr sig: Hvert er þingið að fara? Þetta virðist vera orðið þannig að ráðherrarnir og framkvæmdarvaldið stjórni þingstörfunum meira og minna en ekki þingmenn sjálfir eða stjórnendur þingsins. Þetta er alveg stórmerkilegt.

Ég tek undir það sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði áðan og ég í rauninni bara krefst þess að forseti fresti fundi þangað til þessum blaðamannafundi er lokið fyrst ráðherrarnir leggja svona mikla áherslu á það að sinna blaðamönnum og koma þannig fram við þingið að það sé algjör afgangsstærð varðandi þetta mál. Þetta er gjörsamlega óþolandi og þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum þessa framkomu og verður örugglega ekki í seinasta sinn.

Ég mæli því eindregið með því að þingfundi verði frestað þangað til ráðherrar geta komið sér í þessa stóla.