137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mér fannst einkenna mál hv. þingmanns var að það eru í rauninni engar lausnir og stjórnvöld og ríkisstjórnin hafa í rauninni engar hugmyndir um hvernig þeir ætla að reisa atvinnulífið og heimilin við að nýju.

Þó var eitt sem hv. þingmaður minntist á og hann sagði hér og fullyrti, að bara við það eitt að sækja um aðild að ESB mundu, ef ég skildi hann rétt, hlutirnir á einhvern hátt batna. Mig langar bara til þess að spyrja hvernig, fá rökstuðning fyrir þessari fullyrðingu. Erum við að tala um einhvers konar fyrirgreiðslu frá Evrópusambandinu, munu þeir dæla inn peningum?

Mig langar líka til að spyrja hvernig við eigum að fá þetta aukna traust, þegar allar Evrópuþjóðir virðast vera á móti okkur, bara við það eitt að sækja um aðild? Ég sé þetta einhvern veginn ekki fyrir mér. Getur verið að þingmaðurinn sé að rugla þessu saman við þá aðstoð sem okkur Íslendingum býðst nú þegar, að sækja um hjá Evrópusambandinu og var einmitt bent á í skýrslu sem er nýkomin út? Þar var einmitt bent á það líka og undrast af hverju stjórnvöld hefðu ekki verið búin að sækja um þá fyrirgreiðslu. Er það það sem hv. þm. Helgi Hjörvar er að tala um? Mig langar til þess að fá nánari rökstuðning fyrir þessari fullyrðingu.