137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég átti þess kost að funda með Göran Persson í vetur og inna hann aðeins eftir þeirra reynslu af samdrættinum í Svíþjóð á sínum tíma og það er rétt hjá hv. þingmanni að við erum hér að tala um talsvert stærri og erfiðari tölur en þeir voru að fást við þar.

Ég held hins vegar að við þingmenn eigum um leið og við horfumst af raunsæi í augu við þá miklu erfiðleika og bagga sem við þurfum á okkur að taka að muna það líka að Ísland bjó að og býr enn að gríðarlega miklum styrkleika. Þegar áfallið ríður yfir er ríkissjóður hér skuldlaus með hátt í 200 milljarða innstæður í Seðlabankanum. Við erum óvenjulega auðugt ríki að náttúruauðlindunum. Við njótum þeirrar gæfu að hér var safnað í söfnunarlífeyrissjóði gríðarlegum fjárhæðum sem tókst furðuvel að varðveita í gegnum hrunið. Allir þessir styrkleikar verða til að hjálpa okkur í þeirri erfiðu glímu sem við eigum fyrir höndum. Ég held að við eigum að horfast í augu við að sú landsframleiðsla sem við sjáum fram á er umtalsverð á alþjóðlegan mælikvarða eftir sem áður. Við skulum líka minnast þess að þó að skuldsetning okkar verði mikil þá er það ekki skuldsetning sem er óþekkt meðal þjóða og ýmis af fremstu viðskiptalöndum heims búa við mikla skuldsetningu. Ég held að um leið og við horfumst af raunsæi í augu við erfiðleikana þá eigum við líka að halda til haga styrkleikum okkar og rækta með okkur von og trú á framtíðina.