137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[17:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég dvaldi í Svíþjóð í þrjú og hálft ár og lærði þar. Ég veit ekki betur en það land sé mjög ríkt af náttúruauðlindum líka og býr svo vel líka að vera mun nær mörkuðum í Evrópu en við. En þeir fóru gegnum mikla erfiðleika þrátt fyrir að mun minna væri af vanskilaskuldum í sænska bankakerfinu en hér. Hér erum við jafnvel að tala um hlutfall eins og 60–70% af skuldum fyrirtækja og einstaklinga séu í vanskilum og þá mismunandi miklum vanskilum. Við erum því bara að tala um allt önnur hlutföll sem minna mun meira á stöðuna í Indónesíu. Þess vegna finnst mér áhyggjuefni að sjá í þessari skýrslu vitnað í stöðu til landa sem eru alls ekki sambærileg miðað við þá sem við erum að fást við.

Ég tók ekki eftir því hvort hv. þingmaður svaraði spurningu minni um hvort þær 1.300 millj. evra sem er áætlað að borga 2011 og var ætlað að standa bak við gjaldeyrisforða Seðlabankans, þ.e. hvort þessir fjármunir séu til sem fé.