137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[18:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst til þess að bregðast við síðustu orðum hv. þm. Helga Hjörvars þar sem hann fullyrti að náðst hefði árangur í aga í ríkisfjármálum og inn í fjárlaganefnd væri komin ný hugsun og menn ætluðu að taka á þessu.

Það er alveg hárrétt að menn hafa rætt það, alveg eins og stendur í skýrslunni, menn eru að ræða það, en reyndin hefur bara því miður verið í þveröfuga átt og til að mynda eins og þingmaðurinn veit manna best kom inn í þingið í gær lánsfjárlagafrumvarp sem var ekki borið fram af fjármálaráðherra heldur af meiri hluta efnahags- og skattanefndar. Þetta er mál sem heyrir undir fjárlaganefnd og hæstv. fjármálaráðherra og kemur frá fjármálaráðuneytinu. Svona til þess að bjarga því sem bjargað varð vegna þess að það átti einhvern veginn að troða þessu inn í bandorminn milli 2. og 3. umr., var þessi leið valin. Ég held að áður en menn fara að ræða aga og einstök hugtök og fullyrða að það séu komin ný vinnubrögð verði menn að sýna þau í verki. Ég held að það séu lágmarkskröfur sem við þingmenn hljótum að gera.

Eitt sem ég vildi vekja athygli á er að fyrr í vor var kynnt fyrir okkur þingmönnum, og sérstaklega í fjárlaganefnd, þjóðhagsspá. Þar kom fram, einmitt eins og má segja að komi fram í þessari skýrslu fjármálaráðherra, að hagvöxtur mundi aukast eða sem sagt aukningin mundi hefjast einmitt núna um mitt ár, ætti í rauninni að vera hafin, botninum ætti að væri náð og nú mundi hagvöxtur aukast. Það vita allir að það er einfaldlega hlutur sem stenst ekki og það vissu menn líka í vor. Munurinn á þjóðhagsspánni og skýrslunni sem liggur núna fyrir er hins vegar sá að þeir sem kynntu skýrsluna fyrir okkur úr fjármálaráðuneytinu viðurkenndu það fúslega að þeir hefðu ekki aðrar forsendur en þær sem lágu fyrir framan þá og þess vegna væri þetta niðurstaðan. Icesave átti eftir að koma inn í dæmið, lánin frá Norðurlöndunum, Póllandi og Rússlandi, og að það mundi allt að sjálfsögðu skekkja myndina töluvert.

Það er nú einmitt það sem maður gagnrýnir sérstaklega við þetta frumvarp að Icesave-tölurnar eru ekki teknar inn í, sem er skuldaaukning upp á 700–1.000 milljarða, og lánin frá Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Um leið og þau eru komin inn í þá fyrst átta menn sig á því hvað ástandið er orðið hræðilegt. Þingmenn hafa bent á þessa staðreynd.

Svo er eitt sem vekur líka athygli mína og það eru orðin í upphafi skýrslunnar: „Stöðugleiki, velferð, vinna“. Framsóknarmenn hafa í gegnum tíðina haft það að leiðarljósi og notað slagorðin „vöxtur, vinna, velferð“, það sem sagt vantar orðið „vöxtur“ inn í skýrsluna, enda er ekki gert ráð fyrir því hvernig á að ná nýjum tekjum inn í ríkissjóð. Jú, hv. þm. Helgi Hjörvar minntist á að hugsanlega gæti eitthvað lagast við það að ganga inn í Evrópusambandið. Hann gerði það reyndar án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt og þá veltir maður fyrir sér: Ef það er það eina sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa fram að færa hvað hafa þá þingmenn Vinstri grænna fram að færa í þessu máli?

Nú kom inn í stöðugleikasáttmálann ákvæði um að það yrði haldið áfram með Helguvík og Straumsvík. Það ætti væntanlega að skila einhverjum hagvexti en það er þvert á það sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haldið fram og í rauninni barist gegn allri stóriðjuuppbyggingu hér á landi. Hvernig er staðan varðandi álverið á Bakka við Húsavík? Þar hafa menn farið í gegnum allan ferilinn, velt upp öllum hugsanlegum kostum. Vinstri grænir hafa alltaf sagt: Gerið þið bara eitthvað annað. Þeir hafa aldrei komið með lausnir, aldrei nokkurn tíma. Þar mælist atvinnuleysi eitthvert það mesta á landinu og það þrátt fyrir þá staðreynd að fólk sem fær ekki vinnu flyst í burtu, það flyst á suðvesturhorn landsins. Ungt fólk sem fær ekki atvinnu fer að heiman og það snýr ekki endilega aftur, því miður. Þegar menn leggja fram svona skýrslur og áætlanir þá verður að koma fram hvernig menn ætla að fara að því að fá inn tekjur í framtíðinni, það er algert grundvallaratriði.

Eitt af þeim orðum sem ríkisstjórnin og fjármálaráðherra vilja leggja áherslu á er velferð. Ef ég man rétt, þá lofuðu stjórnarflokkarnir fyrir síðustu kosningar, og þá sérstaklega Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að það yrði ekki snert á velferðarpakkanum. Menn vissu þá hver staðan var. Menn vissu þá að það yrði að fara í niðurskurð, það viðurkenndu allir, en það leyfðu sér ekki allir að tala með þessum hætti. Hver var niðurstaðan eða hver var reyndin með hinum svokallaða bandormi sem ríkisstjórnin lagði fram um daginn til þess að afla 20 milljarða aukatekna inn í ríkissjóð, til þess að mæta fjárlagarammanum fyrir árið 2009? Jú, það var einmitt að hækka álögur á aldraða og öryrkja, það var sem sagt byrjað á þeim sem minnst mega sín í samfélaginu. Hefði ekki verið nær að fara út í meiri niðurskurð í stjórnsýslunni? Hefði ekki verið nær að sameina ráðuneyti? Ríkisstjórnin sem talaði nú, og Vinstri grænir sérstaklega, þeir skömmuðu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar fyrir að vera með tólf ráðuneyti en þeir eru sjálfir með tólf ráðuneyti. Það breyttist einfaldlega ekki neitt. Hefði ekki verið hægt að spara þar?

Það kemur reyndar fram í skýrslunni, sem er vel, að það standi til með einum eða öðrum hætti að sameina ráðuneyti en er ekki bara málið að hefja það ferli strax? Ég beini því að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem sitja mér sitt til hvorrar handar að hefja það ferli fyrr en seinna. Ég held til að mynda vel mætti sameina viðskipta- og iðnaðarráðuneytið sem Valgerður Sverrisdóttir lék sér að að stjórna meðan hún var ráðherra.

Hér er talað um vinnu, það er talað um vinnu, en hvað var gert í bandorminum? Var ekki einmitt verið að skera niður í vegaframkvæmdum, 3,5 milljarða? Svo eru nefndar einhverjar aðrar framkvæmdir, sem eru ekkert útlistaðar neitt sérstaklega hér í bandorminum upp á 925 milljarða. Er það ekki einföld hagfræði að til þess að ná í tekjur verðum við að setja eitthvað í gang? Við verðum að auka hagvöxtinn, koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það hefur nánast hver einasti þingmaður í þessum sal talað um að nú þurfi að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það er ekki minnst á það einu orði í þessari skýrslu liggur við, jú, það er rætt í einni málsgrein að það sé nauðsynlegt að kanna það að auka hagvöxt með þessum hætti og jú, að þetta muni bitna á heimilum og fyrirtækjum landsins. Það er nú einmitt málið.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki meiri tíma til þess að ræða þessa skýrslu. Að lokum vil ég segja að síðasta orðið sem á að vera einkennandi fyrir skýrsluna, „stöðugleiki“, er einmitt það sem á ekki við um hana vegna þess að með (Forseti hringir.) Icesave-skuldbindingunum munum við ekki fá neitt annað en óstöðugleika. Við vitum ekki (Forseti hringir.) hverjir vextirnir verða, við vitum ekki hver salan á eignunum verður og það eina sem ríkisstjórnin hefur fram (Forseti hringir.) að færa til þjóðarinnar er óvissa.