137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er loks komið á dagskrá frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur og það er hið allra besta mál. Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða mál hún telur að geti einmitt verið til þess fallin að við munum setja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún nefndi ESB-málið. Þingflokkar Framsóknarflokksins og þingflokkur Borgarahreyfingarinnar hafa í sameiningu lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Icesave-skuldbindingarnar, þ.e. ríkisábyrgðin á þeim verði lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að það mál sé of snúið fyrir þjóðina svo ég vísi beint í orð hans sem birtust á visir.is. Er hæstv. forsætisráðherra sama sinnis eða telur hún kannski eins og hæstv. fjármálaráðherra taldi einu sinni, fyrir nokkrum árum, að þeir sem héldu slíku fram, þ.e. að þjóðin gæti ekki tekið svo stórar ákvarðanir, það væri einhver ömurlegasti málflutningur sem hann hefði heyrt? Getur verið, og það er ágætt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telur að ESB-málið sé einfaldara en Icesave-málið.