137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki hægt að gefa einhver einföld svör við því nákvæmlega hvaða mál geta fallið undir þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég fór þó aðeins inn á það almennt í þá veru hvernig það gæti verið og víða í þjóðaratkvæðagreiðslum eru undanskildir ákveðnir málaflokkar. Ég man t.d. eftir fjárlögum og því um líkum málefnum. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um tvö málefni og spyr um ESB. Ég held að það sé alveg ljóst og hvarfli ekki að nokkrum manni annað en ef við fáum samning sem menn telja að sé með þeim hætti að það sé rétt að bera hann undir þjóðina, þá verði hann borinn undir þjóðina. Við gerumst aldrei aðilar að Evrópusambandinu öðruvísi en að þjóðin hafi þar sitt lokaorð og ráði úrslitum um það hvort við gerumst aðilar að Evrópusambandinu eða ekki.

ESB getur auðvitað út af fyrir sig verið flókið mál en ég held að við munum hafa miklu meiri tíma til að kynna það mál fyrir þjóðinni. Það yrði að fara í ítarlega efnislega kynningu eftir að fyrir lægju drög að samkomulagi við Evrópusambandið sem þyrfti að fara í mjög ítarlega kynningu hjá þjóðinni. Varðandi Icesave-málið þá er það flókið og ég tek undir það með forsætisráðherra, og þingmenn hafa séð það á þeim skjölum sem hefur verið dreift að þetta er mjög ítarlegt frumvarp og ég held að það hafi aldrei verið lögð fram jafnmörg málsskjöl með einu máli eins og með þessu máli. Þetta eru 90 eða 100 málsskjöl þar sem aflétt er trúnaði af ýmsum gögnum. Þetta er mjög viðamikið mál sem þarna er lagt fram að því er varðar Icesave-frumvarpið og Icesave-málið og ég held að við höfum ekki þann tíma sem þarf til að bera þetta mál undir þjóðina. En auðvitað munum við eins og kostur er reyna (Forseti hringir.) að kynna málið fyrir þjóðinni miðað við þann tíma sem við höfum í þessu máli.