137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil taka það fram í upphafi að ég fagna slíku frumvarpi á sama hátt og frumvarpi til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur sem kom fram hjá fulltrúum Borgarahreyfingarinnar en mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra vegna þess að mér fannst málið ekki nægilega skýrt. Það er hvergi talað um það í þeim greinum sem í frumvarpinu eru að kosning í þjóðaratkvæðagreiðslum eigi að fara fram eins og í kosningu um forseta Íslands, þar sem er eitt atkvæði, einn maður. Og ef þannig á að vera að það er eitt atkvæði, einn maður, af hverju í ósköpunum stendur það þá ekki bara í þessu frumvarpi klárt og kvitt og skýrt en ekki eins og stendur í 12. gr., með leyfi forseta:

„Um atkvæðagreiðsluna sjálfa, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað, fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.“

Ef miða á við eitt atkvæði, einn mann, þá á það að standa í þessum lagabálki en ekki í greinargerð með frumvarpinu. Mér þykir þetta óskýrt og ég vænti skýringa frá hæstv. forsætisráðherra.

Í öðru lagi segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Alþingi getur ákveðið með þingsályktun að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram.“

Telur hæstv. forsætisráðherra að þar nægi að meiri hluti þingmanna sé samþykkur slíkri atkvæðagreiðslu eða þarf 2/3 hluta?

Í þriðja lagi segir í 11. gr., með leyfi frú forseta:

„Til þess að spurning eða tillaga sem er borin fram í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf meiri hluti þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni að svara játandi eða fylgja tillögunni.“

Ég spyr því: Þarf þá ekki að setja einhver ákvæði um að það þurfi lágmark kosningaþátttöku landsmanna til að þjóðaratkvæðagreiðslan geti verið annað tveggja ráðgefandi eða bindandi?