137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[20:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Fyrir rúmri viku lagði Borgarahreyfingin fram fyrsta frumvarpið sitt og fjallaði það um þjóðaratkvæðagreiðslur. Kjarni Borgarahreyfingarinnar er lýðræðisumbætur og því gladdi það okkar borgarahjörtu að geta lagt fram þetta frumvarp. Það kom þó ekki til af góðu. Í vor var skipaður vinnuhópur um persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing, sem sagt okkar hjartans mál, og var hv. þm. Þór Saari fulltrúi okkar í þeim hópi. Seta þar var fremur sorgleg og í stuttu máli sagt áttu hugmyndir Borgarahreyfingarinnar um lýðræðisumbætur ekki upp á pallborðið hjá þeim sem stýrðu hópnum. Því sömdum við og mæltum fyrir okkar eigin frumvarpi.

Það frumvarp sem hér er lagt fyrir er brandari og móðgun við almenning. Það er ekki fólki bjóðandi að leggja fram frumvarp þar sem hvorki þjóðin né minni hluti þingmanna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarflokkarnir ætla því að ákveða fyrir okkur hin hvort og um hvað við megum kjósa. Þetta finnst mér forsjárhyggja af verstu sort.

Stjórnarflokkunum virðist mikið í mun að halda almenningi í stöðu barns, barnsins sem fær ekki að taka afstöðu til eigin framtíðar, ekki er hlustað á og ekki er mark á takandi. Nú veit ég vel að það stangast á við stjórnarskrá okkar að þjóðaratkvæðagreiðslur séu bindandi. Okkar frumvarp er því líka því marki brennt að vilji þjóðarinnar getur einungis verið ráðgefandi. Ég tel mikilvægt að farið verði í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni við fyrsta tækifæri, og ekki aðeins breytingar. Í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar er lagt til að haldið sé stjórnlagaþing þar sem landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá. Sú sem við eigum núna er í grunninn samin handa 19. aldar Dönum. Það var Kristján IX. Danakonungur, og þar með kóngur okkar Íslendinga í þá daga, sem færði landsmönnum stjórnarskrána árið 1874, á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Síðan eru liðin 135 ár. Stjórnarskránni hefur verið breytt nokkrum sinnum, t.d. árið 1918 þegar Ísland fékk fullveldi og 1944 þegar sjálfstæðið, sem nú virðist svo brothætt, var í höfn. Flestar breytingar hafa þó lotið að kosningalöggjöf og kjördæmabreytingum að undanskilinni breytingu á eða nýjum kafla um mannréttindamál.

Árið 1884, þegar stjórnarskráin var 10 ára, höfðu aðeins 9% Íslendinga kosningarrétt. Öll viðhorf okkar til mannréttinda hafa breyst síðan 1874 og tímabært að skapa nýja stjórnarskrá á forsendum okkar sem erum 21. aldar Íslendingar en ekki 19. aldar Danir. Það er að mínu mati hneisa ef frumvarpið verður samþykkt í þessari mynd. Það er mikilvægt að almenningur geti með ákveðnum skilyrðum farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu og eins finnst mér mikilvægt að einn þriðji hluti þingmanna geti krafist þess að mál séu lögð í dóm þjóðarinnar eins og okkar frumvarp gerði ráð fyrir.

Þjóðin á betra skilið en þetta frumvarp.