137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er eðlilegt að spurt sé í framhaldi af hruninu sem hér varð í haust, þar á meðal auðvitað þeirri gjaldmiðilskreppu sem við gengum í gegnum, hvar endurskoðun peningamálastefnunnar sé á vegi stödd. Ég get upplýst hv. þingmann um að Seðlabankinn hefur unnið að greinargerð um peningamálastefnuna og um þær úrbætur sem unnt væri að gera innan núverandi ramma um aðra valkosti. Þessi umræða og sú stefna sem tekin verður mun væntanlega taka nokkurt mið af því hverjar lyktir verða í þeirri þingsályktunartillögu sem fyrr var nefnd undir þessum dagskrárlið, þ.e. um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Langtímastefna í þeim málum mun auðvitað hafa áhrif þó að það breyti því ekki að á leiðinni þangað, ef sú stefna verður tekin, er hægt að vinna að ýmsum úrbótum og margra kosta er völ.

Það var stefnt að því að greinargerðin yrði tilbúin núna fyrir mánaðamótin en það mun dragast í nokkra daga að birta hana. Mér er kunnugt um að henni er því sem næst alveg lokið. Hún verður þá birt og okkur gefst tækifæri til að fjalla um hana, þau sjónarmið og atriði sem þar koma fram og taka hina pólitísku umræðu um þær úrbætur sem má vinna innan núverandi ramma um aðra þá valkosti sem kunna að vera uppi og um stefnuna til lengri tíma. Ég tel að það sé gríðarlega brýnt í ljósi þess háa vaxtastigs sem íslenskt atvinnulíf þarf enn að búa við og átti auðvitað sinn þátt í þeim miklu erfiðleikum sem hér sköpuðust á síðasta ári.