137. löggjafarþing — 31. fundur,  1. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB -- peningamálastefnan -- lán frá Norðurlöndum.

[13:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mundi ráðleggja hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að hafa ekki alltaf mikla trú á því sem stendur á mbl.is, sérstaklega ef það æsir hann svona mikið upp eins og sjá mátti áðan. Það hefur ekki staðið til að leyna kjörunum á þeim lánum sem var verið að undirrita í morgun eins og réttilega hefur komið fram. Það kemur eftir augnablik.

Þetta voru lán upp á samtals 1.775 millj. evra sem var skrifað upp á úti í Stokkhólmi í morgun og ég upplýsi hér með glöðu geði, eins og alltaf stóð til að gera, um kjörin og lánstímann. Heildarlánstíminn er 12 ár, fyrstu fimm árin eru afborgunarlaus, þ.e. aðeins eru greiddir vextir af lánunum ársfjórðungslega. Vextirnir eru breytilegir og taka mið af þriggja mánaða euribor-vöxtum að viðbættu álagi upp á 2,75% sem þýðir að vextirnir af láninu eru samtals 3,85% í dag, þ.e. miðað við stöðu vaxtanna í gær. Það er þá alveg upplýst enda stóð ekki annað til en að upplýsa um það í þessum sal hver kjörin væru á láninu. Það er varasamt að trúa öllu því sem fyrir augu ber á vefmiðlum.